150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vera mjög skýr í andsvari mínu og óska eftir skýru svari: Af hverju stendur í þessari nýju fjármálastefnu að þið ætlið að halda í fyrirhugaða aðhaldskröfu á spítala og heilsugæslu? Erum við ekki í miðjum heimsfaraldri? Af hverju er haldið í sérstaka aðhaldskröfu á skólana í þessari nýju stefnu? Eru skólarnir ekki að drukkna í umsóknum, m.a. út af hinu sögulega atvinnuleysi? Af hverju er haldið í sérstaka aðhaldskröfu gagnvart listamönnunum, nýsköpun eða rannsóknum í miðjum Covid-faraldri? Ég veit að ekki eru settar nýjar aðhaldskröfur í þessari stefnu, enda hefði það verið galið, en við skulum ekki blekkja fólk því að það kemur skýrt fram í þessu plaggi að þið ætlið að halda í fyrri aðhaldskröfur. Veit þjóðin það? Vita þingmenn að hér stendur til að halda í aðhaldskröfur samkvæmt gildandi fjármálaáætlun? Uppsafnað eru það um 60 milljarðar kr.

Herra forseti. Þetta er því 60 milljarða kr. andsvar til hæstv. ráðherra.