150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það muni gefast aðeins betri tími til að fara dýpra í þessa þætti í meðförum nefndarinnar. En mér finnst það hafa sannað sig að sú aðferðafræði sem við beittum í þessu máli, að setja niður ákveðin grundvallarviðmið, hafi reynst mjög vel. Í fyrsta lagi ætlum við ekkert að koma að þessu máli nema það liggi fyrir að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg fyrir flugsamgöngur til og frá landinu, ella sé ákveðin hætta á að þær rofni. Í öðru lagi skiptir það máli fyrir okkur að til staðar sé flugrekstraraðili sem byggir á því að að starfsemin fari fram í gegnum Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll. Í þriðja lagi að ekki sé verið að veita stuðning án þess að menn hafi gert ráðstafanir til að tryggja samkeppnishæfni til lengri tíma. Og í fjórða lagi að við séum ekki að setja nýtt hlutafé eða veita lán þegar (Forseti hringir.) þeir sem hafa beina rekstrarhagsmuni eða eignahagsmuni í félaginu hafa ekkert lagt af mörkum eins og t.d. til þess að bjarga hluthöfum. (Forseti hringir.) Með þessi viðmið er auðveldara að taka ákvarðanir.