150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er allt rétt, en það vantar samt að við vitum hvaða sviðsmyndir voru skoðaðar. Þessar forsendur eru alveg ágætar út af fyrir sig. En það sem ég sé í þessari ríkisábyrgð er áhættan fyrir almenning. Það er í rauninni lítið fyrir ríkissjóð að hafa þó að þetta takist. Auðvitað vonum við að þetta takist. En það væri alveg þess virði að skoða að fara almennilega markaðsleið, jafnvel að fara svipaða leið og var gert í hruninu með bankana. Það eru margir ókostir við það, ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir. En í öllu falli þurfum við að vita hvaða leiðir lágu fyrir, hvers vegna þeim leiðum var hafnað sem var hafnað og hvers vegna þessi leið var á endanum talin sú besta. Hún er ekki áhættulaus. Hún er ekki fullkomlega örugg og hún býr til hættulegt fordæmi sem þarf auðvitað líka að ræða aðeins.