150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki segja um hvernig stjórnendum félagsins mun takast að viðhalda trausti hjá markaðnum, hjá fjárfestum, ég ætla engu að spá fyrir um það. En við hljótum að geta verið sammála um að þegar menn hafa náð samningum þarf tvo til og þar með hefur ágreiningur sem uppi hefur verið, verið leiddur í jörð og er ekki lengur til staðar. Ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægir áfangar sem félagið náði í kjaradeilunni, sem var í raun opnuð af félaginu fyrr á þessu ári þar sem óskað var eftir endurnýjun kjarasamninga sem þá voru í gildi. Ég er ekki með efnahagsreikning félagsins nákvæmlega í kollinum en það er alveg rétt að heildarskuldbindingarnar eru gríðarlegar þegar við tökum flugvélarnar með og öll önnur lán. En þá þarf aðeins að skoða hver veðstaðan er á móti. Þetta eru mjög ólíkir fjármálagerningar (Forseti hringir.) sem blandast inn í heildarskuldbindinguna á skuldahliðinni og t.d. í tilviki flugvélanna erum við að tala um allt annars konar skuldbindingu og annars konar gerninga en við ræðum hér.