150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um lánalínu ríkisins upp á 15 milljarða til Icelandair. Ég verð að segja eins og er að ef Icelandair tekst að ná inn þeim fjármunum í útboðum sem þarf til að halda félaginu á floti þá mun ég, eins og staðan er í dag, styðja málið eins og það er sett fram. Við verðum að horfa á heildarpakkann. Icelandair er búið að byggjast upp á rosalega löngum tíma og er komið með gífurlega reynslu í flugrekstri. Það er ekkert sjálfgefið að við getum bara stigið upp í flugvél og lent þar sem við þurfum að fara í Evrópu og ef maður er ekki að fara til viðkomandi borga þá eru mjög stuttar vegalengdir sem þarf að fara. Þetta er búið að byggjast upp á ótrúlega löngum tíma. Ég held að við yrðum í rosalega slæmum málum ef þetta flugfélag færi algerlega á hausinn. Það tæki okkur gífurlega langan tíma að byggja upp aftur.

Mér sýnist á öllu að það séu ótrúlega margir varnaglar inni í þessu. Það sem ég hafði áhyggjur af var að þetta eru 15 milljarðar frá ríkinu og síðan eiga bankarnir, Landsbanki og Íslandsbanki, að lána líka. En það kemur fram að þegar eignarhlutar félagsins fara undir 8% lokast ákveðnar leiðir en miðað við áætlun fari eiginfjárhlutfallið lægst í 13,3%. Það er verið að reyna að girða fyrir að hér fari allt á versta veg.

Það verður að segjast eins og er að flugfélagið fór svolítið illa og skaut sig aðeins í fótinn með deilunni við flugfreyjur. Það sorglegasta í þessu öllu saman var hvernig þeir höguðu sér þar. Ég hugsa að þeir hljóti að naga sig í handarbökin núna eftir á. Þeirri deilu er ekki lokið og var mjög óheppileg uppákoma. Maður veit ekki hvaða áhrif það hefur, hvort það hefur einhver áhrif á útboð. Það er líka annað slæmt í þessu ástandi, eins og kom fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, að verðmæti félagsins er að fara úr 180 milljörðum niður í 6–7 milljarða. Þetta félag er búið að vera til gífurlega lengi og þarna kemur tap sem lendir á lífeyrissjóðunum. Og hverjir eru það sem tapa? Jú, það er venjulegt fólk, vinnandi fólk, sem á sitt fé í lífeyrissjóðunum. En á móti kemur alltaf spurningin um hversu mikill hagnaður hefur skilað sér inn á öllum þessum tíma. Þetta þarf auðvitað að fara saman.

Við vitum líka að við höfum gefið svipaða ábyrgð í sambandi við Vaðlaheiðargöngin, þar var ákveðið lán eða áhætta og stór hluti endaði á ríkinu. Ég hef nú ekki komist í gegnum þessi Vaðlaheiðargöng enn þá. Ég hafði tækifæri til þess í sumar en ég gerði það viljandi að fara fram hjá þeim. Af því að ég þekki til þá gat ég farið fram hjá þeim. Mér var vísað á Grenivík en ég var á leiðinni til Húsavíkur. Ef ég hefði verið útlendingur og ekki þekkt til þá hefði ég aldrei farið fram hjá Vaðlaheiðargöngum, ég hefði farið í gegnum þau því að þangað benti pílan til Húsavíkur. Það er hreinlega verið að villa um fyrir fólki. Það sýnir að þetta er svolítið vandmeðfarið, að við skulum leyfa okkur að gera þetta, ég veit ekki hvort það er í þeim tilgangi að bjarga þessu framlagi ríkisins eða í einhverjum öðrum tilgangi, en það er verið að villa um fyrir fólki og reyna að fá það til að fara í göngin. Ég get vel skilið að flestir vilji nota göngin á vetrum og þegar slæmt er veður. En þarna var bara hið besta veður þannig að það var yndislegt að fara hina leiðina. En ég var einn af fáum sem fór hana, flestallir fóru í gegnum göngin. Ég er viss um að hver einasti útlendingur gerir það nema hann eigi leið út á Svalbarðseyri eða hina leiðina.

Það er kannski mikil hætta á því að allt fari á versta veg en við vitum ekkert. Það getur komið eldgos, það getur komið önnur plága. Áhættan er alltaf til staðar í flugrekstri. Við verðum líka að meta hversu mikil áhætta það er að láta flugfélagið fara yfir um. Það hlýtur að verða eitthvert mál en ég vona að það takist fyrir félagið að ná öllum þessum milljörðum sem það þarf að fá. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með fyrrgreindri áætlun um fjármögnun mun félagið fjármagna að fullu vænta fjárþörf (258 milljónir bandaríkjadala) næstu 24 mánuði með lausu fé (150 milljónir bandaríkjadala) og væntu hlutafé nýrra hluthafa (147 milljónir bandaríkjadala), samtals tæplega um 297 milljónir bandaríkjadala.“

Mér skilst að þetta séu í kringum 45 milljarðar þannig að þetta er alveg gífurlegt fé. Síðan koma bankarnir inn í þetta, 52 milljónir dala, síðan önnur lánalína, 120 milljónir dala, frá ríkinu, þar af greinilega 108 milljónir sem ríkið fer með og hitt fer á bankana. Eins og ég sagði áður þá lítur fjárþörfin út fyrir að vera í kringum 60 milljarðar. Þar af leiðandi er hlutfallið sem ríkið er með í sjálfu sér ekki nema 25% og það kemur ekki inn nema allt hitt sé farið. Ég vona að það segi okkur að áhættan sé tiltölulega lítil.