150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segir að enginn annar geti lagt mat á þetta nema þeir sem taka þátt í hlutabréfaútboðinu. En samt eigum við hér að ákveða ríkisábyrgð upp á 16 milljarða. Ég klóra mér í hausnum og vil fá að vita hvort hægt sé að ná sömu markmiðum, öruggum flugsamgöngum og tengingum til og frá landinu, fyrir 16 milljarða á einhvern annan hátt.

Á kynningarfundinum var einnig spurt um hvaða aðrar sviðsmyndir lægju til grundvallar. Fjármálaráðuneytið sagðist ætla að útvega öll gögn málsins hvað það varðaði og ég hlakka til að sjá þau og hvernig þetta verður unnið í nefndarvinnunni í kjölfarið. Reynsla mín hvað það varðar er þó ekkert gríðarlega góð. Alltaf þegar ég bið um öll gögn málsins þá koma þau ekki eða ef öll gögnin eru fyrir hendi kemur í ljós að við erum í verri málum en ég hafði haldið. Að byggja ákvörðun á svo litlum gögnum væri mjög vítavert í þeim málum sem ég fjallaði um, í fjárlögum, fjármálaáætlun o.s.frv. hvað þetta varðar. En hér eigum við í þessum þingsal að taka ákvörðun um þessa 16 milljarða íslenskra króna. Ef við tökum þá ákvörðun í þeirri blindni sem hv. þingmaður vísar til varðandi það að þeir sem geta tekið ákvörðun um þetta séu þeir sem taki þátt í hlutafjárútboðinu, velti ég fyrir mér hvort við séum ekki á dálítið röngum nótum gagnvart framkvæmdarvaldinu ef það útvegar okkur ekki þessar upplýsingar.