150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Þessari ríkisstjórn og stuðningsfólki hennar hér á þingi hefur tekist að rjúfa þá samstöðu sem almannavarnaþríeykið náði með þjóðinni. Af hverju er samstaðan að rofna? Frá þríeykinu var alltaf skýrt hvert var verið að fara og af hverju. Ákvarðanirnar voru erfiðar en fólk getur alveg tekið erfiðum og þungbærum ákvörðunum, svo lengi sem útskýrt er af hverju ákveðin leið er farin og það gerði þríeykið svo snilldarlega. Svo sleppir almannavarnaþríeykinu okkar og ákvörðunin fer til ríkisstjórnarinnar. Á ég að minnast á klúðrið varðandi samskiptin við Íslenska erfðagreiningu um greiningu og skimun? Á ég að nefna það? Þegar ríkisstjórnin fær þetta til sín þá verður einhver moðsuða. Það er allt í lagi að segja fólki að við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir sem hafa eitt og annað í för með sér. Við fengum ekki þær upplýsingar, ekki fyrir atvinnulífið, ekki fyrir menningu, ekki fyrir listafólkið. Fyrir vikið sjáum við ákveðið at á milli þjóðfélagshópa af því að ríkisstjórnin útskýrði ekki nægilega vel hvert hún ætlaði með leiðum sínum og aðferðum.

Við í Viðreisn höfum stutt meira og minna allt sem hefur komið frá ríkisstjórninni og hefðum jafnvel mátt gæta meira að. Við höfum komið að, hjálpað og lagað. En þegar við spyrjum spurninga þá er það ekki bara svo að ekki hafi verið pólitískt samráð heldur á að skrúfa líka fyrir spurningar okkar til ríkisstjórnarinnar. Við fáum ekki enn þá svar við því (Gripið fram í.) hvaða greiningar hæstv. ferðamálaráðherra bað um og hvers vegna. Hvaða greiningar lágu fyrir og hvaða efnahagslegu og félagslegu afleiðingar? Hvaða skilaboð ætlið þið að senda Suðurnesjamönnum sem glíma við dúndrandi atvinnuleysi? Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir (Forseti hringir.) þá? Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir listafólk? Það var ekki útskýrt (Forseti hringir.) í sumar þegar við opnuðum og ekki heldur núna þegar við lokuðum. (Forseti hringir.) Vel að merkja bauð sóttvarnalæknir upp á átta eða níu (Forseti hringir.) tillögur og hvatti til þess að pólitíkin væri líka meðvituð um (Forseti hringir.) sína ábyrgð.

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk.)