150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég spyr á móti: Ef þetta stendur í skilmálunum, af hverju máttu þá ekki lögin gilda? Það er það sem ég velti fyrir mér. Í öðru lagi get ég ekki annað en sagt að þegar við höfum ekki fengið allar þær upplýsingar sem stjórnarflokkarnir hafa yfir að ráða, alla vega ríkisstjórnin — mér sýnist að þingmenn stjórnarflokkanna séu stundum jafn mikið í myrkri og við í stjórnarandstöðunni — þá geld ég varhuga við því ef kippa á úr sambandi lögum sem hafa í sér fólgið ákveðið aðhald gagnvart ríkisstjórn, gagnvart því sem hún er að framkvæma hverju sinni og það þarf að rökstyðja. Það getur vel verið að það komi betur fram í nefndinni. Mér finnst það ekki koma nægilega skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu þannig að mér finnst það vera þess virði að nefndin fari betur yfir það, enda sýnir reynslan okkur að í þau skipti sem þessum lögum hefur verið kippt úr sambandi hefur það ekki reynst sérstaklega vel.