150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skorast ekkert undan því orðspori sem ég hef enda er ég búinn að spyrja þessarar spurningar og það er komið minnisblað til fjárlaganefndar um nákvæmlega af hverju lög um ríkisábyrgðir eigi ekki við, merkilegt nokk. Útskýringarnar eru mjög hálar, einfaldlega að lögin eigi ekki við. En hver eru rökin fyrir því? Svo er talið upp að þau eigi bara við í einhverju verkefni og ýmislegt í þá veru. Rökin er ekki að finna. Hægt að lesa úr þessu minnisblaði orð sem segja hitt og þetta en ekki af hverju? Ekkert um hver sé lagaleg heimild framkvæmdarvaldsins til að fara ekki eftir lögunum eða hvar lagaheimildin sé sem segir að lög um ríkisábyrgðir eigi ekki við í þeim tilvikum þegar við veitum ríkisábyrgð. Engin rök. Eina lausnin er: Úps, þessi lög eru óþægileg, „skúbbum“ þeim frá.

Á sama tíma er samt farið eftir hluta af lögunum og þau sett í skilmála þessarar ríkisábyrgðar. Það er mjög merkilegt því að þar er framkvæmdarvaldið í rauninni að taka sér ákveðið löggjafarhlutverk. Skilmálar sem almennt séð eru í lögum um ríkisábyrgðir fara inn í skilmálana um ríkisábyrgð gagnvart einkafyrirtækinu sjálfu. Það eru, faktískt séð, lagagreinar sem fá enga þinglega meðferð, engar umsagnir eða neitt svoleiðis. Þarna er í rauninni búið að taka lögin úr sambandi og setja hluta af lagagreinunum inn í skilmála einhvers samnings. Það finnst mér dálítið merkilegt. Það finnst mér áhugaverð notkun á framkvæmdarvaldinu.