150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin og sömuleiðis fyrir hrósið er varðar umhverfismálin. Ég held að þau séu gríðarlega mikilvægur þáttur í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin þarf að grípa til varðandi efnahagslega viðspyrnu. Ég lýsi því hér yfir að ég myndi gjarnan vilja sjá meiri áherslu og framar varðandi umhverfismálin í þeim aðgerðum.

Eins og hv. þingmaður þekkir er ríkisaðstoð til einkafyrirtækis ávallt vandmeðfarin. Hún var á þingi þegar ríkisaðstoð til deCODE var til umfjöllunar. Það voru að vísu hærri upphæðir en hér um ræðir og kannski ögn meiri óvissa varðandi það hvað starfsemi fyrirtækisins átti nákvæmlega að snúast um siðferðislega o.s.frv. Pólitískt séð og hugmyndafræðilega séð er ríkisaðstoð ávallt vandmeðfarin. En þegar kemur að tryggingu á almannafé, útdeilingu á almannafé, þurfum við sem löggjafarvald að tryggja að almannafé sé tryggt með þeim hætti, eins og ég nefndi í ræðu minni, að gerðar séu skýrari kröfur og að fulltrúar framkvæmdarvaldsins séu þá til staðar til þess að passa upp á það almannafé.

Eins og frumvarpið ber með sér eru ekki allir nákvæmlega sammála um þessa leið. Tekin er sú ákvörðun að veita ríkisábyrgð á lánalínur frekar en að veita hlutafé inn í fyrirtækið gegn því að eignast tímabundinn hlut í fyrirtækinu. Eins og ég nefndi í ræðu minni þá er það leið sem hægri ríkisstjórnir og frjálslyndir miðjumenn í Evrópu hafa farið, það eru tímabundnar aðgerðir til að eignast tímabundið hlut í flugfélögunum. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður gæti tekið undir margt af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í Evrópu en það er ljóst að ekki eru fleiri stjórnarliðar sammála mér um þær leiðir.