150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við Íslendingar erum verulega háðir flugsamgöngum og meira en margar aðrar þjóðir. Tryggar og öruggar flugsamgöngur skipta einnig öllu fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar, sem var okkar stærsta atvinnugrein fyrir veirufaraldurinn, og útflutningsverðmæti tengd sjávarútvegi, sem flutt eru með flugi, hafa einnig vaxið mikið á síðari árum. Hér er um að ræða verulega mikla samfélagslega hagsmuni og stórt og mikið mál og fjárhagslega hagsmuni fyrir fjölda launafólks og fyrirtækja í landinu. Það er mikill ábyrgðarhluti að mínu mati af hálfu ríkisins að gera ekki neitt í þeim aðstæðum sem við erum í vegna faraldursins og sérstaklega hvað varðar þetta fyrirtæki. Áhættan er því veruleg að gera ekki neitt.

Fyrirtækið Icelandair var rekið með hagnaði á árunum 2011–2018 og á þeim tíma skilaði það um 3 milljörðum króna í ríkissjóð. Umfang þess er mikið í íslensku hagkerfi og lausafjárstaða félagsins var sterk fyrir veirufaraldurinn. Í fyrirtækinu er mikill mannauður og þar starfar fólk sem lagt hefur mikið á sig til þess að gera veg þess sem bestan í áraraðir. Fjölmargir starfa hjá fyrirtækinu. Stöðugildin voru 4.700 árið 2019 og síðan fylgja fjölmörg afleidd störf. Ef við tökum sem dæmi fjölda starfsmanna á Suðurnesjum þá voru þeir árið 2017 370 talsins sem störfuðu í nýju flugskýli sem þá var tekið í notkun á Keflavíkurflugvelli. Þessi störf eru almennt hálaunastörf og gleymum því ekki í þessu samhengi að atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum. Í Reykjanesbæ er það um 19%, hvorki meira né minna. Hjá fyrirtækinu starfa fjölmargar konur, svo dæmi sé tekið, og á Suðurnesjum er nú ein kona af hverjum fimm atvinnulaus. Stuðningshlutverk ríkisins er því á mörgum sviðum mjög mikilvægt í þessu máli. Með þessu er verið að vinna að því að fjárfestar komi að félaginu og um það snýst þetta mikilvæga mál. Ef hin fjárhagslega endurskipulagning félagsins á að ganga eftir er þörf á aðkomu ríkisins, þörf fyrir að Alþingi veiti þessa lánsheimild, sem vonandi þarf ekki að nýta, og tryggi um leið hagsmuni skattgreiðenda. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt og eins er mikilvægt að farið verði vandlega yfir málið í fjárlaganefnd. Vil ég þar sérstaklega nefna umsögn Ríkisendurskoðunar sem liggur fyrir, að nefndin fari vandlega yfir hana og fái svör við þeim spurningum sem vakna þar. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði áðan, að við eigum að vanda okkur í þessu máli. Það er að afar mikilvægt.

Þær tryggingar sem lagðar eru fram af hálfu félagsins gagnvart lánafyrirgreiðslunni tel ég vera ásættanlegar. Má þar nefna afgreiðslustaði á flugvöllum, svonefnd „slots“ á enskri tungu, en í þeim eru töluverð verðmæti. Síðan er það vörumerki Icelandair, sem er þekkt um allan heim, og svo sölu- og dreifileiðir eða bókunarkerfi. Innviðir félagsins eru tilbúnir að fara á fullt, fara í gang um leið og birtir til á þessum markaði. Í því felast verðmæti og það er ekki síst mikilvægt í þessu máli.

Ég vil taka undir það með hæstv. fjármálaráðherra að það er ákveðið afrek að félagið hafi staðið af sér þá miklu storma sem geisað hafa undanfarna mánuði í flugrekstri. Félagið hefur núna náð mikilvægum áföngum í því að undirbúa hlutafjárútboð sem er nauðsynlegt til að tryggja frekari rekstur þess. Búið er að semja við allar flugstéttir og gilda samningar til loka september 2025, og við flugvirkja til loka árs 2025. Félagið hefur fengið greiddar skaðabætur frá Boeing-flugframleiðandanum vegna svonefndra Max-flugvéla, og auk þess hefur félagið náð samningum við lánveitendur. Þetta eru að sjálfsögðu allt mjög mikilvægir áfangar í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og felur í sér minni áhættu fyrir afkomu ríkissjóðs.

Ferðamannaiðnaðurinn mun að sjálfsögðu vaxa á ný þegar faraldurinn er genginn yfir og bóluefni komið á markað. Ísland hefur upp á margt einstakt að bjóða þegar kemur að ferðamönnum, eins og við þekkjum öll, og landið mun verða vinsælt á ný. Stjórnvöld taka að mínu mati mikla áhættu ef ekki verður af stuðningi ríkissjóðs í formi lánsheimildar. Höfum það í huga að lánafyrirgreiðslan er til þrautavara. Það er ekki víst að hún verði nýtt og vonandi þarf ekki að koma til þess. En hún er nauðsynleg svo félaginu takist að safna því hlutafé sem nauðsynlegt er til að tryggja rekstur þess. Það er mikil áhætta og margt getur tapast fyrir þjóðarbúið ef félagið yrði gjaldþrota. Félagið er enn á góðu róli, ef svo má segja, hvað varðar lausafé, en ef ekkert verður gert og það fer niður í núll mun það gerast á haustmánuðum.

Það er mikilvægt í þessu máli, eins og fram kemur í frumvarpinu, að gert er ráð fyrir því að aðkoma ríkisins komi inn síðast í endurskipulagningunni og að ríkið fari síðan fyrst út aftur, eins og sagt er, um leið og aðstæður skapast. Síðan eru settar girðingar til að hvetja félagið til að nýta ekki ríkisábyrgðina. Má þar nefna að arðgreiðslur verði ekki heimilaðar, og fleiri þætti sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Rétt er að nefna að komið hefur fram, og það er mikilvægt atriði, að félagið getur farið inn í sumarið 2021 án þess að draga á lánsheimild ríkisins. Höfum einnig í huga að helstu samkeppnisaðilar félagsins hafa notið ríkisstuðnings. Síðan er árið 2020 eitt versta ár í sögu flugrekstrar í heiminum, þannig að við sjáum aðkomu ríkisins víða með einum eða öðrum hætti að fjölmörgum flugfélögum.

Það er að sjálfsögðu áhættuþáttur í málinu ef næsta sumar verður ekki gott með tilliti til komu farþega og er óvissan í málinu einkum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er það tímalengd faraldursins, hvenær hann er genginn yfir og hvenær bóluefni verður komið á markað, og í öðru lagi er það ferðavilji fólks, hvenær fólk verður almennt tilbúið til þess að ferðast á ný.

Komið hefur fram að í þeirri miklu vinnu sem átt hefur sér stað í málinu voru skipaðir tveir hópar af hálfu ríkisins. Ég vil nota tækifærið hér og þakka því ágæta fólki sem komið hefur að málinu af hálfu ríkisins og lagt grunninn að þeirri vinnu sem við förum yfir í fjárlaganefnd og þingið hefur tekið til umfjöllunar. Annar hópurinn var í samtali við Icelandair-félagið á meðan hinn hópurinn skoðaði aðrar leiðir, það hefur komið fram, og þeir sem komu að vinnuhópunum þekkja vel til í þessum rekstri. Niðurstaðan var sú að skynsamlegasta leiðin væri að styðja við Icelandair. Aðrar leiðir voru taldar lakari. Mikilvæg þekking og reynsla er innan félagsins sem skipta mun sköpum í því að viðspyrnan verði öflug þegar faraldrinum lýkur. Það skiptir verulegu máli fyrir samfélagið. Rætt hefur verið um að ríkið eignist hlut í félaginu. Um það vil ég segja að ég tel þá leið hafa meiri áhættu í för með sér en þá sem hér er lagt upp með. Hlutafélags- eða hlutafjárleiðin er áhættusöm. Saga opinbers eignarhalds í flugfélögum er ekki til eftirbreytni, það er reynsla frá flestum nágrannalöndum okkar. Flugrekstur er breytilegur rekstur sem ekki er heppilegt að ríkið sé hluthafi í. Það er því til mikils að vinna að forða félaginu frá gjaldþroti, það held ég að allir séu meðvitaðir um. Það er tæknilega flókið að endurreisa gjaldþrota félag. Það er veruleg áhætta að endurreisa slíkt félag og margt tapast í því ferli, mikil verðmæti. Það hefur afleiðingar ef ríkið veitir ekki þessa lánsheimild.

Herra forseti. Ég vil í lokin endurtaka það sem ég sagði í upphafi og leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd, þó að hún hafi frekar skamman tíma, fari vandlega yfir þetta mál. Nefndarmenn hafa fengið góða kynningu hvað varðar stöðu félagsins, sem ég hef rakið aðeins. Þetta er þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki á mörgum sviðum, veitir fjölmörgum fjölskyldum atvinnu og er liður í því að okkur vegni vel. Við erum mjög háð flugsamgöngum og því fylgja mikil verðmæti að eiga gott flugfélag sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi. Ég vil endurtaka að það er mjög mikilvægt að við nálgumst þetta mál út frá því að það er þjóðhagslega mikilvægt, en við þurfum að sjálfsögðu að tryggja hagsmuni ríkisins og hagsmuni skattgreiðenda og fara vel yfir allar þær athugasemdir sem koma fram í því ferli sem fram undan er innan nefndarinnar. Ég vona að þingheimur verði sammála um að hér sé verið að stíga mikilvægt og nauðsynlegt skref.