150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður og þakka fyrir svarið. Ég ætla að grípa með mér: Ég leyfi mér að vera efins. Það er einmitt okkar hlutverk. Við eigum að vera í efasemdargír án þess kannski að stíga yfir þá línu að tortryggja. Ég held að í þessu máli hafi akkúrat enginn gagn af því að leyna einhverjum upplýsingum. Það kann að vera að í ljósi þess að félagið sem um ræðir er skráð á markaði séu einhverjar upplýsingar inni á milli sem eru háðar einhverjum trúnaði o.s.frv. Við virðum það auðvitað eins og við getum og reynum að leita allra gagna.

Þegar upp er staðið hefur engin gagn af því að leyna upplýsingum og sérstaklega ekki varðandi það sem við erum að ræða hér í upphafi andsvars um ríkisábyrgðir. Við viljum bara tryggja að ferlið sé skýrt, að það sé gagnsætt og fari svo að þingið styðji þetta mál verði allt það sem við viljum að ríkisábyrgðalögin feli í sér tryggt í málinu. Það er okkar hlutverk og það er okkar sameiginlega vinna fram undan.