150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:23]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Engum þarf að koma á óvart að ég taki til máls í umræðum um frumvarp er varðar ríkisábyrgð til Icelandair og segi að mér finnist það vont mál. Þeim sem hafa fylgst með mér og mínu pólitíska lífi fyrir og eftir formlega þátttöku í pólitík ætti ekki að koma á óvart að ég segi líka að mér finnist ekki einboðið að veita Icelandair ríkisábyrgð. Ég hef í gegnum tíðina, þá sjaldan sem slík mál hefur borið á góma hér á þingi, lagst gegn veitingu ríkisábyrgðar. Þó að ég hafi ekki verið komin inn á þing þegar Íslensk erfðagreining fékk ríkisábyrgð með sérstökum lögum gerði ég athugasemdir við það á þeim tíma. Eitt af fáum lagafrumvörpum sem ég hef lagt hér fram sem þingmaður laut einmitt að afnámi þeirra laga en þau hafði dagað uppi í lagasafninu og enn var í gildi ríkisábyrgð til handa Íslenskri erfðagreiningu löngu eftir að henni var ætlað að eiga við og alls kyns aðrar ríkisábyrgðir. Mér detta í hug ríkisstyrkir fyrir kísilver á Bakka o.fl. sem hefur ratað í umræðu og til afgreiðslu hér á þinginu og lúta að slíkri ábyrgð sem óneitanlega skekkir samkeppnisstöðu á markaði. Jafnvel þótt ekki sé mikil samkeppni á markaði skekkir slíkt markaðinn og er til þess fallið að menn í atvinnulífinu taki rangar ákvarðanir sem ekki eiga stoð í raunveruleikanum. Mönnum ætti því ekki bregða við það að ég komi hingað og nefni þetta.

Í umræðunni í dag, sem hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með, hefur þingmönnum orðið tíðrætt um hið kerfislega mikilvægi Icelandair en ég hef ekki orðið vör við að menn útlisti nákvæmlega í hverju það felst. Ég spyr sjálfa mig: Hvað þýðir það? Jú, við tökum öll undir það að samgöngur til og frá landinu eru kerfislega mikilvægir innviðir. Ég held að það deili enginn um það. Fyrir okkur sem eyþjóð er það sérstaklega brýnt að flugsamgöngur til og frá landinu haldist uppi með öruggum hætti. En það er annað mál hvort eitt fyrirtæki getur talist svo mikilvægt í þeim efnum að fyrirtækið sjálft teljist kerfislega mikilvægt og svo mikilvægt að það kalli á margra milljarða ríkisábyrgð og jafnvel fjárstuðning. Ég þykist nokkuð viss um að ég geti haldið því fram að svo sé ekki. En þetta er einmitt það mál sem er til umræðu hér í þinginu og verður næstu dagana.

Menn hafa svolítið verið að bera fyrir sig orðalaginu „kerfislega mikilvægt“ í öllu þessu. Ég get kannski skilið það. Ég held hins vegar að þetta mál sé miklu tilfinningaþrungnara en svo að það falli undir það. Þó að menn hafi ekki nefnt það hér er Icelandair svolítið tilfinningalegt fyrirtæki fyrir alla Íslendinga og ég hef stundum sagt að við höfum öll starfað fyrir Icelandair. Ef verið væri að setja í gang einhverja herferð gæti slagorðið verið: Við erum öll Icelandair. Þó að ég hafi aldrei verið á launaskrá hjá fyrirtækinu hef ég ótal sinnum staðið í þeim sporum á ferðalögum erlendis að vera að selja fólki sem er að fara yfir hafið, frá Evrópu til Ameríku eða í hina áttina, flugmiða með Icelandair. Ég hef bent því á kosti Icelandair og hvatt fólk til að eiga viðskipti við fyrirtækið, ekki af því að ég hafi haft nokkra hagsmuni af því heldur er það einhvern veginn komið úr uppeldinu og umhverfinu hér. Jafnvel þótt Íslendingar hafi bölsótast út í fargjöld fram og til baka þegar þeir kaupa sér flugfarseðla hér innan lands þá hef ég heyrt marga vera í mínum sporum þegar út í heim er komið, að agitera, ef ég má sletta þannig, eða tala fyrir þessu ágæta flugfélagi og því mikilvæga starfi sem það hefur haft með höndum í þágu okkar allra. Ég held því að þetta sé tilfinningalegt mál.

Það var sagt við mig í gær, utan húss reyndar: Ef þú ætlar að tala á móti ríkisábyrgð fyrir Icelandair skaltu átta þig á því að það er eins og að ætla að vera vondur við fjölskyldumeðlim. Það er kannski svolítið svoleiðis. En maður verður að reyna og ég held að það sé mikilvægt fyrir þingið og fjárveitingavaldið, þar sem hagsmunir skattgreiðenda eru í húfi, að hefja sig yfir þessar tilfinningar. Mér koma líka til hugar þær tilfinningar sem börðust um í okkur við efnahagshrunið 2008, þegar í ljós kom að ástæðan fyrir því að allir þeir bankareikningar sem reyndust okkur svo erfiðir áratug á eftir, t.d. Icesave-bankareikningarnir, höfðu ekki verið fluttir úr landi á sínum tíma, þó að það hafi blasað við að það þyrfti að gera, var sú að rómantískar tilfinningar ýttu undir að þeir voru hafðir á landinu. Hvernig svo sem hv. þingmenn tala um fólk í atvinnulífinu þá er það raunverulegt fólk eins og við öll sem hefur tilfinningar og langflestir bera hag þjóðar sinnar fyrir brjósti og vilja leggja til samfélagsins og skilja eitthvað eftir sig í samfélaginu. Aðgerðir þessa fólks markast iðulega af þeim hvötum þótt hagnaðarvonin þurfi auðvitað að vera yfirsterkari.

Menn nefna einnig að nú séu fordæmalausir tímar. Þá hlýt ég að spyrja: Af hverju er það? Hafa aðgerðir stjórnvalda t.d. gert þessa tíma fordæmalausari og aðstæður erfiðari en þyrfti að vera? Ég vil sérstaklega nefna þær aðgerðir sem farið var í við lokun landamæranna nú í ágúst, en 14. ágúst var í raun tekin ákvörðun um að loka landamærunum frá 19. ágúst og það þrátt fyrir að engar tölur bentu til þess að viðlíka veirubylgja væri að skella á landinu og var í vor. En allt að einu var þetta gert. Þá vil ég rifja það upp að í júní var farið í sérstakt átak, erlendar markaðsskrifstofur voru keyptar til að markaðssetja Ísland undir yfirskriftinni Ísland er opið, reyndar á ensku, en stuttu síðar var skellt í lás. Í umræðum um þetta frumvarp finnst mér vanta að ríkisstjórnin tali skýrt í þessum efnum og kynni fyrir þinginu hver stefnan er varðandi opnun landamæra.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi í dag og í gær, það sem er rétt, að hver dagur er mjög dýr og kostar mikið í þessu ástandi. Þó hefur það verið kynnt með útreikningum hagfræðinga að það sé allt í lagi að loka landinu vegna þess að þá verði allt í plús hér innan lands. Sem betur fer virðist ríkisstjórnin, ef fjármálaráðherra talar fyrir hennar hönd í þessum efnum, vera að átta sig á því að hver dagur er mjög dýr. Mér sýnist ákvörðunin sem tekin var um lokun landamæranna 14. ágúst hafa verið tekin í óðagoti. Ég tel brýnt að vinda ofan af þeirri ákvörðun og tel eðlilegt að gera það áður en frumvarp sem þetta er afgreitt. Hér er verið að biðja um aðstoð við flugfélag sem eru í raun allar bjargir bannaðar eins og staðan er í dag með þessum aðgerðum. Ríkið sjálft hefur kippt grundvellinum undan félaginu með þessari ákvörðun, og meðan menn tala þannig að þeir ætli jafnvel að hafa landamærin lokuð í marga mánuði, eins og sóttvarnalæknir sagði í viðtali fyrir nokkrum vikum en hefur nú sjálfur svo sem skipt um skoðun og undið örlítið ofan af þeirri spá sinni, þá held ég að það væri vel til fundið að hv. fjárlaganefnd fái það a.m.k. á hreint hvenær undið verði ofan af þessari aðgerð.

Ég hef hvorki tíma né forsendur til að fara yfir reksturinn á þessu tiltekna fyrirtæki og ég tek hattinn ofan fyrir fjárlaganefnd fyrir að þurfa að gera það að einhverju leyti. Hv. fjárlaganefnd kemst ekki hjá því að kynna sér aðeins rekstur og forsendur þessara ákvarðana. Ég vil sérstaklega benda hv. fjárlaganefnd á að skoða nokkur atriði.

Hér er lagt upp með það að tryggja hagsmuni ríkisins og frumvarpið um ríkisábyrgðina varðar bara 15 milljarða, 90% af viðbótarláni fyrir rekstrarláni. Ég sé hér í skjalinu að einnig er áætlað að félagið safni í fyrsta lagi að lágmarki 20 milljörðum í nýju hlutafé. Mér finnst skipta máli að fyrir liggi hvort það verði sölutryggt með einhverjum hætti og hvort það séu ríkisbankarnir sem ætli að sölutryggja það. Í öðru lagi kemur fram að félagið gerir líka ráð fyrir að það fái að nýju aðgang að rekstrarlánum sinna viðskiptabanka sem höfðu lokað fyrir lánveitingar til fyrirtækisins fyrir skömmu en ætla að opna þær aftur í ljósi þess möguleika að íslenska ríkið ætli að ábyrgjast viðbótarrekstrarlánalínu. En þessir bankar eru báðir ríkisbankar, Landsbankinn og Íslandsbanki, og mér finnst vera að safnast saman í hagsmuni ríkisins í peningum talið, mér finnst ekki alveg hægt að horfa bara á ríkisábyrgðarhlutann í þessu. Mér sýnist það vera 17 milljarðar sem verða að rekstrarlánalínum hjá bönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka. Ég velti því fyrir mér og ég beini því til hv. fjárlaganefndar hvort það væri ekki þess virði að skoða hvort hagsmunum ríkisins væri ekki betur borgið ef það hefði verið gert að skilyrði að hluti eða jafnvel allt af þessum rekstrarlánalínum kæmi frá einkabanka en ekki tveimur ríkisbönkum. Þetta er nú eitt atriði, svona til að minnka áhættu ríkisins í þessu.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig hv. fjárlaganefnd ætlar að skoða samkeppnisstöðuna. Það eru fleiri fyrirtæki í myndinni, eitt íslenskt fyrirtæki í bígerð og önnur sem fljúga inn á þennan markað, og við vitum að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA-ríkjanna, hefur gefið það út að það sé í lagi að veita þessa ríkisábyrgð. Það breytir því ekki að það kunna að vera önnur sjónarmið sem geta gert ríkið bótaskylt gagnvart öðrum aðilum á markaði.

Mig langar líka til að beina því til nefndarinnar að fá það alveg á hreint hvernig lendingarleyfum í Bandaríkjunum er háttað. Því er haldið fram, af þeim sem um þetta véla, að það geti verið erfitt fyrir önnur félög að fá lendingarleyfi í Bandaríkjunum. Þess vegna sé mikils virði að halda Icelandair í gangi og ég legg þunga áherslu á það líka. Það atriði skiptir mjög miklu máli. Flugsamgöngur til Bandaríkjanna eru grundvöllur að öruggum flugsamgöngum til og frá Íslandi beggja vegna hafsins. Ég tel mikilvægt að það liggi fyrir hvort það er rétt sem haldið er fram að lendingarleyfi í Bandaríkjunum kosti blóð, svita og tár. Mér finnst það ólíklegt í ljósi þess að við höfum reynslu af því að WOW air flaug þangað stóran hluta af rekstrartíma sínum.

Það þarf líka að skoða hvernig ríkisaðstoð hefur verið beitt erlendis. Það væri fróðlegt að sjá hvernig þessu er háttað í Evrópu. Við sjáum að það er verið að veita ríkisaðstoð til stórra og stöndugra félaga sem eiga mikið af eignum en vantar lausafé. Icelandair á ekki mikið af eignum. Ég held að það blasi við, það eru a.m.k. ekki mikil verðmæti í þeim eignum, nema kannski hótelbyggingum, nú til dags. Ég hef svo sem ekki forsendur til að fjalla um þetta en hvet hv. nefnd til að taka þetta allt til skoðunar.

Ég vil samt segja að lokum að ég er mjög bjartsýn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar um flugsamgöngur til og frá Íslandi, jafnvel í nánustu framtíð. (Forseti hringir.) En landið þarf auðvitað að vera opið til að sú bjartsýni nái fram að ganga.