150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:40]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Hv. þingmaður er bjartsýnn ef hann heldur að ég upplýsi hér um hvernig mál eru afgreidd úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það sem sagt er í þingflokki Sjálfstæðisflokksins helst í þingflokknum. Þó að hv. þingmenn séu oft spenntir fyrir því hvernig einstaka þingmenn greiða atkvæði, jafnvel áður en 1. umr. um málið er lokið, þá vil ég segja það sem ég hef sagt áður er ég er spurð um þetta: Ég vil auðvitað að málið fái þinglega meðferð og tek ákvörðun að henni lokinni, sérstaklega í þessu máli vegna þess að ég, eins og ég nefndi, er almennt ekki hlynnt ríkisábyrgð. Það þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart en ég hef mikla samúð með flugrekstri almennt og viðurkenndi það meira að segja hérna áðan að bera tilfinningar í garð þessa blessaða fyrirtækis, Icelandair, sem ég hef aldrei nokkurn tímann unnið hjá og hef í sjálfu sér miklu oftar bölsótast út í vegna of hárra fargjalda heldur en nokkurn tímann hitt. En samt er það bara þannig og ég get ekki útskýrt af hverju ég ber einhverja tilfinningar til félagsins. Mér þætti bara gaman að vita hvort það sama á við um aðra hv. þingmenn vegna þess að ef það er þannig þá þarf það að liggja fyrir þannig að menn átti sig á því út frá hvaða sjónarmiðum menn taka hér ákvarðanir. Ég ætla að leyfa málinu að gerjast í hv. fjárlaganefnd og ber miklar væntingar til þeirra sem þar sitja.

Hér var spurt líka hvort ég héldi að ríkisábyrgðin yrði notuð í samkeppnisrekstri. Það blasir bara við. Ef á hana reynir eða þessi lán, þá er það auðvitað til þess að fara í rekstur á þessu fyrirtæki og rekstur þess er allur í einhverri samkeppni á alls konar sviðum.