150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað það atriði varðar held ég að fjárlaganefnd verði einhvern veginn að beina lánalínunni eingöngu að flugrekstrarhlutanum sem er í hvað minnstri samkeppni, og eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar í rauninni engri, þannig að það sé sagt. Þá erum við bara á svipuðum báti, ég og hv. þingmaður, það mun skipta mjög miklu máli hvernig verður unnið úr þessu máli í fjárlaganefnd og hvernig upplýsingar við fáum og hverju verður breytt því að ýmsu þarf að huga. Mér finnst ágætt að hv. þingmaður sýni ákveðnar tilfinningar. Ég fagna því og fagna því líka að tilfinningar séu dregnar inn í þetta af því að ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, að hluta til eru tengslin við Icelandair háð tilfinningum, kannski í beinum tengslum við þessa setningu, „velkomin heim“, eftir lok flugferðar hingað til landsins. Það er hluti af dæminu en er ekki stærsta breytan. Það er ábyrgðarhluti hjá okkur að mínu mati í þinginu hvernig við tryggjum stofnbrautirnar inn og út úr landinu. Er Icelandair best til þess fallið? Hvernig tryggjum við mannauðinn, þekkinguna og reynsluna hjá félaginu sem er algerlega óumdeilt að er mikil? Það eru verðmæti sem við megum ekki glata. Allt eru þetta mikilvægar breytur, líka hin tilfinningalega sem hv. fjárlaganefnd þarf að skoða og fara yfir, enda er fólk mikilla tilfinninga á þeim bænum.