150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:44]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki má heldur gleyma því að Icelandair er stór vinnustaður, einn sá stærsti á landinu og allir þekkja einhvern eða eiga einhvern að sem vinnur þar þannig að þrýstingur á menn kemur úr ýmsum áttum. Það er líka það sem ég á við með tilfinningum en eins og ég sagði í ræðu minni skiptir máli að menn hefji sig upp yfir tilfinningar og reyni að leggja ískalt mat á aðstæðurnar allar. Af því að hv. formaður fjárlaganefndar situr hér þá er auðvitað engin pressa en það veltur allt á því hvað kemur út úr nefndinni og þeirri skoðun. Ég get svo sem ekki bætt neinu við það. Ég held að þetta þurfi að skoðast í því stóra samhengi.

Ég held að það sé engum vafa undirorpið að mjög margir geta tryggt flugsamgöngur til og frá Íslandi. Ég held að það þurfi enginn að velkjast í vafa um það nú á dögum. Tugir flugfélaga hafa flogið síðustu ár til og frá landinu. Menn skipta um kennitölur á fyrirtækjum á örskömmum tíma. Rekstraraðilar koma og fara, fyrirtæki koma og fara og það á við um flugbransann og flugumhverfið eins og aðrar atvinnugreinar. Það þarf líka að hafa í huga, hv. þingmaður, hverjir eru best til þess fallnir að tryggja þær samgöngur. Það er rétt að menn hafi það í huga utan þings og innan að í öllu falli er það þannig að við hv. þingmenn erum, held ég, í mjög litlum færum til að meta hverjir eru best til þess fallnir að reka flugfélag á Íslandi. Þess vegna vil ég helst að markaðurinn (Forseti hringir.) taki þá ákvörðun fyrir okkur.