150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[20:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, Covid-19. Eins margoft hefur komið fram lifum við á fordæmalausum tímum og stöndum í baráttu sem hvergi nærri er lokið. Við horfum upp á mörg verkefni sem stafa af afleiðingum veirunnar og þessi verkefni þarf að leysa. Nú erum við stödd í einni dýpstu efnahagslægð sem orðið hefur í fjölda ára. Atvinnuleysi eykst og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar verður almennt atvinnuleysi líklega brátt komið yfir 10%. Það er langt síðan við höfum séð slíkar tölur hér á landi. Af þessu er auðséð að það er okkur nauðsynlegt að bregðast frekar við áhrifum kórónuveirunnar á vinnumarkað og efnahag landsins.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur brugðist við með fjölbreyttum hætti og einn af fjölmörgum liðum aðgerða hennar er þetta frumvarp. Hér leika félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra lykilhlutverk með framsetningu aðgerða sem vinnumarkaðurinn hefur mikla þörf fyrir, auðvitað með framsóknarandann í fyrirrúmi. Þessar aðgerðir tryggja áframhaldandi stuðning við vinnumarkað og einstaklinga sem eru án atvinnu um þessar mundir. Lögð er til framlenging greiðslna til launa þeirra einstaklinga sem eru í sóttkví. Þessar greiðslur greiðast til launagreiðenda og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Einnig er lögð til framlenging hlutabótaleiðarinnar, sem reynst hefur vel. Með þessum aðgerðum höldum við stuðningi við atvinnurekendur sem lent hafa illa í aðstæðum síðustu mánaða. Þetta eru almennt lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru samfélaginu afar mikilvæg. Einnig er lögð til lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Að missa vinnuna á tímum þar sem framboð atvinnu er af skornum skammti hefur reynst fjölda einstaklinga mjög erfitt. Þetta eru einstaklingar í nánast öllum atvinnugreinum, á öllum aldri og um allt land. Þessar aðgerðir eru settar fram til að styðja við bakið á aðilum vinnumarkaðarins og launþegum sem orðið hafa fyrir barðinu á áhrifum kórónuveirunnar á einn eða annan hátt.

Hæstv. forseti. Þar sem menntun er okkur Framsóknarmönnum verulega hugleikin vil ég vekja sérstaka athygli á átakinu Nám er tækifæri. Um er að ræða vinnumarkaðsúrræði sem við ættum öll að geta fagnað. Meginmarkmið átaksins er að hvetja þá einstaklinga sem eru atvinnulausir til að mennta sig og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Þetta geta atvinnulausir gert í heilt námsár án þess að bætur þeirra skerðist. Þetta átak mun hafa góð áhrif til skamms tíma og lengri. Með því er áhersla lögð á starfs-, verk- og tæknigreinar. Hér getum við búið til tækifæri þar sem þau eru af skornum skammti. Mennt er máttur og nám er tækifæri, kærkomið tækifæri sem við bjóðum þeim sem orðið hafa atvinnulausir vegna aðstæðna sem enginn gat séð fyrir og enginn bað um. Einnig er þetta tækifæri fyrir samfélagið og vinnumarkaðinn hér á landi. Aukin sérhæfing getur leitt til aukinnar framleiðslu sem og meiri fjölbreytni atvinnulífsins.

Hæstv. forseti. Ég tek þessum aðgerðum fagnandi og tel að það geti allir aðrir hér inni gert líka. Um er að ræða aðgerðir til að tryggja aðilum á vinnumarkaði frekari stuðning á erfiðum og ófyrirsjáanlegum tímum. Þetta eru ekki varanlegar ráðstafanir en þær eru örugglega brú inn í framtíð sem við þurfum að mæta. Henni mætum við með samstilltu átaki og samvinnu.