150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Okkur er sagt að stjórnvöld þjáist af stefnuleysi og vanmætti, bæði fyrir faraldurinn og nú í honum, svo við skulum snöggvast horfa til Ölfuss sem er 2.300 manna samfélag. Þar fer nú fram dæmi um uppbyggingarstefnu og langtímasýn sem á sér rætur hjá stjórnvöldum. Það er verið að hyggja á aukinn vatnsútflutning og kolefnisjöfnun hans, byggja upp 5.000 tonna laxeldi á landi í tveimur áföngum, stefna að stórfelldri ylrækt til útflutnings. Það er vaxandi þörungarækt, omega-3 fitusýrur og prótein í auðlindagarði Orku náttúrunnar. Það er nýtt þekkingarsetur í Þorlákshöfn og það er bætt hafnaraðstaða til útflutnings í Þorlákshöfn.

Þetta, herra forseti, endurspeglar atvinnustefnu stjórnvalda, eins fjölbreytt og hún er, nýsköpunarstefnu og nýja sjóði, nýja matvælastefnu, nýja metnaðarfulla samgönguáætlun og orkustefnu og grænar áherslur. Þetta minnir okkur á fjölmörg tækifæri sem bíða í Suðurkjördæmi, frá Suðurnesjum til Hafnar í Hornafirði, og, hv. þingmenn, allt þetta minnir líka á raunveruleikann. Hann felst ekki í stóryrðum allt of margra í stjórnarandstöðunni um stefnuleysi og getuleysi stjórnvalda því að þau orð ala á ruglingi og reiði og sundrungu á erfiðum tímum. Þar horfum við í andlit lýðhyggjunnar eða lýðskrumsins þar sem stjórnmálamenn taka að sér að deila og drottna. Það er sem sagt verið að halla réttu máli, svo ég spari stóru orðin, þegar farið er yfir raunveruleikann sem blasir við, og þetta er ekki bara í Ölfusi, þetta er víðar um land, þetta er á Stór-Reykjavíkursvæðinu sömuleiðis. Það er því ekki um getuleysi og vanmátt stjórnvalda að ræða.