150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því undanfarnar mínútur hvernig stjórnarliðar gefa tóninn fyrir þingstörfin í vetur með því að kalla gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna popúlisma. Ég ætla þá að halda áfram á þeirri braut og viðra hér það áhyggjuefni mitt hvað stjórnvöld hafa sýnt mikla tilhneigingu til að sækja í vasa almennings við þær aðstæður sem ríkja núna. Einhvern veginn virðist stemningin á stjórnarheimilinu vera sú að séreignarsparnaður landsmanna sé sá varasjóður sem einfaldast sé að sækja í. Ég tek sem dæmi að eitt af skilyrðunum fyrir hlutdeildarláni, sem er úrræði fyrir tekjulága í íbúðarkaupahugleiðingum og verður til umræðu seinna í dag, átti að vera að hinir sömu tekjulágu einstaklingar þyrftu að fórna séreignarsparnaði sínum ef þeir ættu að vera þess umkomnir að fá að njóta þess úrræðis. Það var sem betur fer þurrkað út vegna stjórnarandstöðumótraka í vor, eða popúlisma svo ég noti hið nýja orð stjórnarþingmanna, sem betur fer.

Annað dæmi má taka af því þegar rýnt er í hvernig tekist hefur til með efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar síðustu mánuði. Þá er það svo að fæst af því sem var kynnt til sögunnar með látum í fjölmiðlafundaherferð ríkisstjórnarinnar í vor hefur nýst með þeim hætti sem lagt var af stað með. Séreignarsparnaðurinn er sú aðferð sem hefur nýst ríkisstjórninni best, þ.e. að láta almenning sjálfan borga brúsann og mæta efnahagsþrengingum með því að ganga á eigin sparnað. Þannig var í upphafi reiknað með 10 milljarða kr. umfangi á tveggja ára tímabili en nú er staðan sú að það hefur tvöfaldast. Þetta er séreignarsparnaður sem fólk er að taka út til að mæta efnahagsþrengingum án þess að fá felldan niður skatt eins og þó er um að ræða þegar verið er að hvetja fólk til að nota séreignarsparnaðinn til kaupa á eigin húsnæði. Fólk er að greiða af þessu skatt. Það er að taka séreignarsparnaðinn út af því að það eru einu úrræðin sem eru í boði. Þetta er tekjuöflunarleið fyrir ríkisstjórnina, (Forseti hringir.) þetta er ekki aðstoð stjórnvalda við almenning í efnahagsþrengingunum. Með því að taka þetta út í dag er fólk að fórna miklum hagsmunum framtíðarinnar og því yngra sem fólk er í dag (Forseti hringir.) því meiri hagsmunum vegna þess að þá er það ekki bara að ganga á sparnaðinn sjálfan heldur líka framtíðarávöxtun. Það er ástæða til að vara við þeirri þróun. (Forseti hringir.) Séreignarsparnaður landsmanna er ekki varasjóður ríkisstjórnarinnar.