150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú þegar hálft ár er síðan allt lokaðist vegna Covid-19 verðum við að skoða hvernig staðan er í þjóðfélaginu í dag. Er í lagi að verja einstakling með öllum ráðum gegn því að fá veiruna en verja hann ekki gegn öðrum sjúkdómum eða veikindum sem hrjá hann á sama tíma?

Því miður hafa tíu látist vegna veirunnar hér á landi. En á sama tíma hafa 30 manns fallið fyrir eigin hendi og engar viðvörunarbjöllur hafa hringt. Er það eðlilegt? Hverjir eru þetta? Hvers vegna? Hvað getum við gert? Bráðamóttaka Landspítala – háskólasjúkrahúss er ekki í góðum málum, segir læknir sem þar starfar, og hafa aðstæður aldrei verið verri þar. Hann segir heilbrigðiskerfið hafa veikst eftir að kórónuveiran breiddist út. Hvað með biðlista í heilbrigðiskerfinu þar sem biðlisti eftir bæklunarlækni hefur tvöfaldast, farið úr 450 manns í næstum 900? Það er dauðans alvara. Hvaða afleiðingar siglum við inn í? Gerum við okkur grein fyrir afleiðingum þess að halda fólki hreyfingarlausu heima þar sem það grotnar niður? Það er verið að skaða fólk, jafnvel varanlega, og um leið að framleiða öryrkja á færibandi til framtíðar. Hvaða varnir hefur þetta fólk gegn veirunni, ef það fær hana? Þetta eru ömurlegar aðstæður sem verið er að bjóða fólki upp á og það er enginn metnaður til að breyta því. Hjúkrunarheimili eru fjársvelt og hvert sveitarfélagið á fætur öðru segir upp samningum við ríkið vegna taprekstrar. Þetta er að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld í boði ríkisstjórnarinnar. Öryrkjar, foreldrar langveikra barna, eldri borgarar, atvinnulausir, láglaunafólk, fá engar hækkanir á framfærslu sína og verða að herða sultarólina í boði ríkisstjórnarinnar. Þá verður stór hópur tónlistarfólks og leiklistarfólks áfram launalaus eftir sex mánuði í þessum ömurlegu aðstæðum. Þetta er ekki boðlegt.