150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má alltaf ræða hvort hækka eigi grunnatvinnuleysisbætur. Við vitum að sú aðgerð er mjög dýr á alla línuna. Stefna þessarar ríkisstjórnar hefur verið að vinna að því að skapa störf, sem er mjög brýnt, og að styrkja vinnumarkaðsaðgerðir sem felast í þessu frumvarpi. Hækkun atvinnuleysisbóta getur komið til álita.

Við tökum það skref núna að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur úr þremur mánuðum í sex mánuði, sem er mjög mikilvægt fyrir þá sem eiga í hlut. Í framhaldinu getum við metið hvort hægt sé með einhverjum hætti að mæta þeim sem verið hafa lengst á grunnatvinnuleysisbótum, sem er ekki há upphæð. Samt hafa atvinnuleysisbætur verið hækkaðar, eins og hv. þingmaður veit. Þær voru hækkaðar fyrir nokkrum misserum síðan og það er gott.

Það má endalaust deila um hvaða aðgerðir ganga best í svona ástandi. Ég held að flestir geti tekið undir að mikilvægast sé að reyna að skapa störf, koma fólki í nám, virkja fólk. Verið er að vinna að því öllu í þessu máli og ég get sagt við hv. þingmann að ég tel að við þurfum að skoða möguleika á að hækka grunnatvinnuleysisbætur, hvort og hvernig það verði gert. Hugur minn stendur til þess að reynt verði að mæta þeim hópum sem verst eru settir. Eins og hv. þingmaður þekkir eru t.d. hæstv. félagsmálaráðherra og Vinnumálastofnun að fara á Suðurnes að hitta fólk þar og fara yfir það erfiða atvinnuástand sem þar er. (Forseti hringir.) Við þurfum að vinna þannig áfram og greina vandann.