150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

972. mál
[22:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina. Það mætti svo sem spyrja út í ýmislegt en ég ætla að hafa þetta einfalt. Mig langar í fyrra andsvari að spyrja út í stöðu foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og foreldra sem ekki geta sinnt störfum vegna lokunar skólastiga eða vegna þess að þjónusta hefur legið niðri. Það er augljóst á öllum fulltrúum velferðarnefndar sem hér hafa talað í kvöld að allir átta sig á því að þar þarna þarf eitthvað að gera, enda væri annað undarlegt. Þetta eru foreldrar sem hafa verið í mjög stopulli vinnu frá því að kórónuveirufaraldurinn byrjaði og horfa fram á að vera á sömu slóðum einhverja mánuði enn. Þegar hæstv. ráðherra sagði í apríl síðastliðnum að hann áttaði sig á vanda þessa hóps og hygðist gera eitthvað í honum óraði engan fyrir því að heilir fjórir mánuðir myndu líða þangað til eitthvað fæddist, hvað þá að einhverjum dytti í hug að einungis myndi fæðast sú pínulitla mús sem styrkur upp á nokkra tugi þúsunda fyrir þriggja mánaða atvinnumissi er. Framsögumaður meiri hluta vísaði hér í umræðu um þetta í heildarendurskoðun og að það þyrfti að greina betur til að ná utan um alla þá einstaklinga sem þarna séu undir. En mig langar, fyrst ég er hér með formann velferðarnefndar, að spyrja: Er þetta ekki eitthvað sem nefndin getur einhent sér í núna? Þurfum við að bíða í aðra fjóra mánuði eða fleiri mánuði eða hvað? Hvenær á þetta fólk að fara að geta slakað aðeins á án þess að hafa áhyggjur af bæði heilsu barnanna sinna og fjölskyldunnar (Forseti hringir.) og viðurværinu?