150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[12:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að mér sé óhætt að taka undir vonbrigði og reiði hv. þingkonu Oddnýjar Harðardóttur með þetta skeytingarleysi en ég ætla að halda áfram að ræða um frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra er varðar breytingar sem hafa áhrif á fólk sem hefur misst vinnuna. Markmið breytinganna er augljóslega að bregðast við neyðarástandi vegna veirufaraldursins. Það er þó rétt að minna á það í upphafi að atvinnuleysi hafði verið að aukast í rúmt ár fyrir faraldurinn samfara kólnandi hagkerfi, með andvaraleysi núverandi ríkisstjórnar. Samfylkingin mun styðja frumvarpið því að í því felast vissulega úrbætur en þó er verið að stíga allt of smá og stutt skref til að mæta þeim hrikalegu aðstæðum sem tugir þúsunda manna og heimili þeirra þurfa að glíma við næstu mánuðina. Þetta mun dýpka kreppuna, auka ójöfnuð og fyrst og fremst leiða ómælda óhamingju yfir fjölda fólks. En til þess að freista þess að bæta þetta frumvarp mun Samfylkingin leggja fram breytingartillögu þar sem m.a. er gert ráð fyrir að grunnatvinnuleysisbætur hækki tímabundið til 12 mánaða og verði 95% af lágmarkstekjutryggingu hverju sinni og að hlutabótaleiðin verði framlengd til júní á næsta ári til að tryggja fólki og fyrirtækjum meiri fyrirsjáanleika. Að öðru leyti ætla ég að vísa í vandað nefndarálit hv. þingkonu Samfylkingarinnar, Helgu Völu Helgadóttur, sem gerir grein fyrir sjónarmiðum Samfylkingarinnar á ítarlegri hátt en ég mun gera.

Frú forseti. Á undanförnum dögum og vikum hefur verið tekist mjög á um hvort hækkun atvinnuleysisbóta frá því sem nú er sé vinnuletjandi. Slík umræða er auðvitað fullkomlega galin við þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem enga vinnu er að fá fyrir allt of marga. Þótt brýnustu verkefni stjórnvalda nú lúti að sjálfsögðu að djarfri atvinnusókn, mun djarfari en teflt hefur verið fram, mun einfaldlega taka einhvern tíma að fylla í það skarð sem hefur verið hoggið, sérstaklega í bein og afleidd störf í ferðaþjónustu sem eru horfin úr hagkerfinu. Þúsundir munu því þurfa um ófyrirséða tíð að sjá fyrir sér og sínum á atvinnuleysisbótum og á annan tug þúsunda manna þarf að gera það á strípuðum bótum sem eru 240.000 kr. eftir skatt, frú forseti. Samfylkingin er alveg til í prinsippumræðu við hægrið um áhrif bótafjárhæða á viðhorf til vinnu en það er miklu eðlilegra að gera það þegar ástandið er aftur orðið nær því að geta kallast eðlilegt. Því leggur Samfylkingin til, í sáttaumleitunum, að hækkunin verði tímabundin, til eins árs. Í millitíðinni skulum við svo leggjast öll á árar við að skapa sem fjölbreyttust störf sem fyrst. En það er alveg ljóst að hagfræðikenningar hægrisins eru foknar út í veður og vind því við þessar aðstæður virkar ekki lögmálið um framboð og eftirspurn og nú er einfaldlega ekki tími til að viðhalda pólitískum kreddum og hengja sig í einhver pólitísk trúarbrögð heldur leggja ofurkapp á að verja líf og heimili fólks. Ég veit að það eru stór orð að fullyrða að um líf og heimili sé að tefla en þau eru bara því miður ekki of stór miðað við þær aðstæður sem eru að ganga í garð, með stærstu kreppu sem á okkur hefur dunið í 100 ár, eða eins og Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, orðaði það skýrt í viðtalsþætti um helgina, með leyfi forseta: „Þetta er okkar styrjöld sem við lentum ekki í 1940.“

Frú forseti. Ríkisstjórnin sló talsvert um sig í vor með yfirlýsingu um að nú þyrfti að gera meira en minna. Stuðningur við fyrirtæki á krepputímum eins og nú er vissulega gríðarlega mikilvægur en hann kemur ekki í staðinn fyrir aðstoð við manneskjur. Í ljós hefur auk þess komið að flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu fyrirtækja síðasta hálfa árið geiguðu. Þess vegna vaknar sú spurning hvort ekki hefði verið gagnlegra, eins og við bentum á í vor, að láta enn stærri hluta þeirra snúa beint að manneskjum, gera meira en minna fyrir heimilin í landinu. Allt púður var sett í að koma fyrirtækjum í gegnum skaflinn, eins og hann var kallaður, að tryggja að þau væru sem best rekstrarhæf þegar komið væri í gegnum hann þannig að þau gætu veitt kröftuga viðspyrnu. Meðal annars voru samþykkt lög sem hvöttu fyrirtæki beinlínis til að segja upp fólki og laga sig þannig að breyttri eftirspurn haustsins þegar ferðamenn færu að streyma til landsins. Með hertum ferðatakmörkunum er ljóst að bið verður á því og atvinnuleysi verður enn meira en ella.

Að ósekju hefði mátt gera miklu meira til að koma illa stöddum heimilum í gegnum þann sama skafl, einmitt þannig að þau hefðu líka nægilega viðspyrnu þegar að því kemur, jafnvel þótt tekjufall sé því miður óumflýjanlegt að einhverju marki. Það þarf líka að tryggja að heimilisfólkið bíði ekki óbætanlegan skaða á meðan stormurinn gengur yfir og heimilislífið fari sem minnst úr skorðum. Það var líka kallað úr ýmsum áttum eftir því að fyrirtæki gætu lagst í eins konar híði þar til óveðrinu slotaði og það var vissulega áhugaverð hugmynd og er enn. En þótt fyrirtæki geti tæknilega lagst í híði ef afborganir eru frystar og gjöld jafnvel felld niður tímabundið og þó að setja megi áhöld í geymslu og drepa á vélum og loka gluggum og læsa dyrum getur fólk og heimili þess einfaldlega ekki lagst í híði, frú forseti. Þar heldur lífið nefnilega áfram í sinni allra verstu mynd. Auk fastra skuldbindinga munu börn áfram vaxa upp úr fötum, þau munu brjóta gleraugun sín, þvottavélar munu bila, fólk mun áfram missa fyllingu úr tönnum, slasa sig eða veikjast og jafnvel alvarlega. Öllu þessu fylgir tilheyrandi kostnaður og jafnvel þótt ekkert óvænt komi upp á, sem við vonum að verði tilfellið hjá sem flestum, neyðast fjölskyldur til að skera niður við trog allt það aukalega sem þrátt fyrir allt gefur lífinu einhvern aukalit. Ef ekki verður meira gert en gert er ráð fyrir í frumvarpinu er hætta á að það bætist enn í þá hópa sem nú þegar eru jaðarsettir í samfélaginu, öryrkja, fátæka eldri borgara og aðra sem hafa stanslaust horft á lífskjarabilið milli sín og annarra breikka ár eftir ár, jafnt í góðæri sem niðursveiflu. Þessa hópa þarf líka að taka utan um í kreppunni þótt maður óttist að þessi ríkisstjórn telji það ekki í forgangi nú, bæði miðað við það hvernig hún hagaði sér í uppsveiflu og hvernig allt of margir stjórnarliðar, jafnvel þeir sem hingað til hafa talist til vinstra fólks, hafa talað í þessari umræðu og á síðustu vikum.

Frú forseti. Það var líka talað mjög mikið um fyrirsjáanleika fyrirtækja. Hann er vissulega gríðarlega mikilvægur og hægt er að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa beðið fram á síðustu stundu með framlengingu úrræða og það er örugglega hægt að gagnrýna þau fyrir að hafa tilkynnt um sóttvarnaaðgerðir með of skömmum fyrirvara en fólk sem er af holdi og blóði þarf líka fyrirsjáanleika. Óvissa, peningaáhyggjur og skortur á fyrirsjáanleika hefur nefnilega slæm áhrif á fólk og jafnvel langtímaheilsu þess. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa til stærri aðgerða en nú. Það er enn mögulegt, það er hægt að samþykkja breytingartillögur Samfylkingarinnar.

Tólf þúsund manns eru á lágmarksbótum í dag og fólk sem missti vinnuna í júní, og fær nú samkvæmt frumvarpinu framlengingu á tekjutengingu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, andar vissulega aðeins léttar í augnablikinu. En í desember lendir það á strípuðum bótum og fær þá 240.000 kr. eftir skatt til að lifa af. Það er því hætt við að víða verði erfiðleikar og vonbrigði þessi jólin, frú forseti. Þess vegna hvet ég þingheim til að setja fólkið í fyrsta sæti og samþykkja tillögur Samfylkingarinnar. Við getum ákveðið það saman hér í dag að hækka grunnatvinnuleysisbætur tímabundið og lengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur og tryggja þannig að heimilum landsins verði tryggður nægilegur fyrirsjáanleiki.