150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir stuðningi þingflokks Viðreisnar við þetta mál, en enn frekar vil ég lýsa yfir stuðningi við málflutning kollega minna í stjórnarandstöðunni sem hér mæltust til þess að skoðaðar yrðu með opnum huga þær fjölmörgu breytingartillögur sem lagðar eru fram í þessu máli. Þetta mál, eins og það er lagt fram af hálfu meiri hlutans, er vissulega gott, en það er hægt að gera betur og við erum nú sífellt að fá fleiri og betri upplýsingar, eða unnið er að því. Það segir okkur að þó að við horfum fram á gríðarlega harðan vetur, sérstaklega sá hópur fólks sem misst hefur vinnuna, þá er þetta tímabundið. Það skiptir máli að grípa til aðgerða núna, að veita fólki fyrirsjáanleika og von. Þess vegna vona ég að þær tillögur, sem lúta mjög margar að því að lengja enn frekar í þessum úrræðum, hljóti brautargengi.