150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér fannst mikilvægt að koma hér upp. Ég var kannski óþarflega neikvæð áðan. Þetta mál er að mörgu leyti betrumbót og við styðjum það. En mér finnst bara leiðinlegt hvað það felst mikil skammsýni og forræðishyggja í þessu. Ég myndi vilja sjá okkur hækka atvinnuleysisbætur. Ég myndi vilja sjá okkur auka sveigjanleika fólks til að taka ákvarðanir á sínum eigin forsendum í stað þess að vera að troða fólki inn einhverja fyrir fram ákveðna kassa. Verið er að tala um að gefa atvinnulausum tækifæri á að fara í nám. Það er ekki verið að hjálpa námsmönnum að fá atvinnuleysisbætur, sem er mjög furðulegt. En maður fer í nám ef ríkisstjórnin segir að það sé gott fyrir vinnumarkaðinn, ef maður sækir um á réttum tíma og þá bara í eina önn, ef ráðgjafi Vinnumálastofnunar telur mann hæfan, ef ráðgjafinn telur að það komi manni beint í vinnu eftir útskrift.

Það eru svo mörg skilyrði. Þetta er svo þröngur rammi. Ég velti fyrir mér: Af hverju gefum við ekki fólki frekar meira frelsi með því að afnema öll þessi skilyrði og skerðingar til að það geti tekið ákvarðanir á eigin forsendum? Því að það er það sem framtíðarvinnumarkaðurinn kallar eftir. (Forseti hringir.) Hugmyndirnar munu ekki koma frá okkur, þær munu koma frá frumkvöðlum í samfélaginu og hugmyndum þeirra um hvernig framtíðarvinnumarkaðurinn og samfélagið munu líta út, en ekki ef við niðurnjörvum þá í fyrir fram ákveðin úrræði.