150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurninguna frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni. Mér finnst fínt að ræða þetta hér. Tökum hjúkrunarfræðinginn sem dæmi. Það stendur ekkert til að einhver hagræðingarkrafa klippi af honum launin, það gerist bara aldrei. Hjúkrunarfræðingurinn mun alltaf fá sín laun í samræmi við þá kjarasamninga sem eru gerðir. Þetta snýr að því að stofnunin í heild hugi að skipulagi, stjórnun, hagræði við vinnu. Ef það snýst um að hlaupa hraðar þá sýnist mér heilbrigðisstarfsfólk hafa staðið sig afar vel í þeim efnum. Við fengum hingað erlenda aðila og þá hlustuðu allir og gagnrýndu að hægt væri að gera hlutina betur hér og þar. Það er það sem ég horfi til þegar ég er að horfa á hagræðingu og ég aðgreini það algjörlega frá pólitískum ákvörðunum, svo ég ítreki það svar. Þegar kemur að Landspítalanum er hann með um 70 milljarða framlag og mér finnst bara eðlilegt að í allri stjórnun hjá jafn margbrotinni stofnun, ef við tökum hugtak úr skipulagsfræðunum, (Forseti hringir.) sé hugað að því hvernig megi skipuleggja stofnunina þannig að hagræðið verði sem mest.