150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sé að ræða afar mikilvægt mál. Í efnahagslegu samhengi sneri þetta að stöðugleika og það er mikilvægt og hefur blessunarlega tekist undangengin misseri að skapa stöðugleika með því að halda verðbólgu niðri. Við þekkjum alveg söguna. Hv. þingmaður dregur jafnframt fram að það snýr nú kannski meira að mælikvarðanum á verðbólgu, þ.e. vísitölu, neysluvísitölunni, sem mælir verðbólguna út frá körfu samsettra þátta. Og þá er það staðreynd að þeir sem hafa lægri tekjur nota þær fyrst og fremst í að fjármagna húsnæði, eiga fyrir mat, fá þak yfir höfuðið, hafa ofan í sig og á. Það er hætta á að þetta speglist í vöruverði á þeim þáttum. Við svona kringumstæður leggjast byrðarnar því miður ójafnt á hópa. Það er hlutverk okkar hér að reyna að jafna þær byrðar.