150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn telur sig hafa gert nóg en þá skulum við bara spyrja hvort fólk sé sammála því. Eru öryrkjar landsins sammála því að nóg hafi verið gert? Eru eldri borgarar sammála því að nóg hafi verið gert? Eru námsmenn sammála því að nóg hafi verið gert? Hvað með starfsfólkið á Landspítalanum sem sagði að vinnustaður þess byggi við neyðarástand? Er það fólk sem segir að nóg hafi verið gert? Segir fátækt fólk, þar á meðal 6.000 íslensk börn, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert nóg? Þetta eru spurningar sem menn þurfa að svara sem koma ítrekað hér fram og segjast hafa gert nóg.

Það er ekki búið að gera nóg. Nóg hefur verið gert fyrir suma. Veiðigjöld hafa lækkað um helming á kjörtímabilinu, skattar hafa verið lækkaðir á fyrirtæki sem kaupa stór skip. Bankaskattur hefur verið lækkaður og vörður staðinn um lágan fjármagnstekjuskatt sem fáir greiða. Nóg hefur verið gert fyrir stórútgerðina, en ekki nóg fyrir þá hópa sem okkur ætti að vera umhugað um.

Það hefur ekki verið gert nóg í samgöngumálum. Ég veit að hv. þingmanni er umhugað um það. Það þarf að gera meira. Það þarf að gera þetta réttlátara. Öryrkjabandalagið sagði í fyrra um fjárlögin: Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir. Eru þetta orð hóps sem heldur að nóg hafi verið gert? Nei, herra forseti. Og ef menn telja að nóg sé gert er svo sannarlega kominn tími til að þeir fái frí frá því að stjórna þessu landi.