150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vildi miklu frekar ræða stafrænar smiðjur og klasa en hitt, það skiptir engu máli í því samhengi.

Við settum inn í nefndarálit, þegar við vorum að vinna fjáraukalagafrumvörpin, einhverja hugmynd að því að nýta þá staði betur og ég hvet hv. þingmann til að grípa þráðinn með þeim sem hér stendur í einhvers konar útfærslu á því. Ég veit að það var bara í samtali við hæstv. ráðherra sem greip þetta úr nefndaráliti og tók vel í það. En það vantar útfærslu á það.

Þetta eru stórbrotnir staðir fyrir frumkvöðlastarf og ég vildi koma inn á klasana því að ég hef verið með hugmyndir um opinbera klasastefnu. Það tengist því sem hv. þingmaður kom inn á varðandi fjölbreytt störf og fjölbreytni í atvinnulífi, að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni, sem er hárrétt og hann lýsti því afar vel hérna, sem ég ætla ekki að endurtaka, en opinber klasastefna snýr að því hvernig við beinum framleiðsluþáttum eftir landshlutum m.a. og í alþjóðlegri samkeppni, að við beinum framleiðsluþáttum í ákveðna farvegi þar sem er skynsamleg nýting á þeim þannig að ekki fari bara allir í ferðaþjónustu þegar hún er í uppgangi og allir í fisk þegar hann er í uppgangi o.s.frv. Hv. þingmaður tengdi þetta grunngildum og sagði: Sjálfbærni getur af sér stöðugleika. Mér fannst það athyglisverð framsetning vegna þess að við erum alveg sammála um að við þessar kringumstæður er lykilgrunngildi auðvitað gagnsæi, eins og kemur fram í áliti fjármálaráðs.