150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, gagnsæið er alltaf mikilvægt og þeim mun mikilvægara einmitt í svona ástandi þegar miklu meiri hraði er á öllu. Það eru alls konar handahlaup varðandi fjárheimildir, hversu nákvæmar þær eru, hvernig þær eru síðan nýttar, sem krefst einmitt aukins gagnsæis. Verið er að ljá ríkisstjórninni ákveðið traust með því að hafa fjárheimildirnar víðar. Á móti þarf ríkisstjórnin að sýna gagnsæi til að sýna að vel sé farið með þær. Þetta hefur algjörlega skort, algerlega vantað. Ég veit ekki hvern er þar við að sakast, augljóslega ríkisstjórnina til að byrja með, giska ég á, því að hún hefur ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart þinginu o.s.frv. Að sjálfsögðu ætti fjárlaganefnd að kalla meira eftir upplýsingum en það hefur ekki gerst. Ég sendi nokkra tölvupósta í sumar þar sem ég spurði nokkurra spurninga með tilvísun í fréttaflutning sem maður sá í sumar. Ég fékk engin svör þannig að ég er pínu lens þegar kemur að þessu öllu.

Ég sé klasastefnu og stafrænar smiðjur örlítið öðruvísi en hv. þingmaður. Hann talar um að beina þessu á skilvirkar slóðir o.s.frv. Ég held einmitt að stjórnvöld ættu að halda dálítið að sér höndum þó að setja megi meira í einstaka áhersluatriði eins og sérstaklega grænar lausnir eða menningu og íþróttir á tímum Covid líka. Þannig að það er hægt að setja áherslur en annars ætti að reyna að skipta sér sem minnst af því hvernig nýsköpunin myndast frá rótum og upp.