150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta fram. Þetta er mjög mikilvægt og ég reyndi að koma inn á það í ræðu minni og við reynum það í áliti meiri hlutans. Það þarf að taka af allan vafa um að það fyrirkomulag sem óvissusvigrúm er á einmitt ekki að nota bara ef okkur hugnast svo. Ef svo fer, og vonandi gerist það ekki, að dekkri sviðsmynd eða þaðan af verra raungerist, þá erum við ekki að reka okkur í sjálfsett markmið og getum ekki brugðist við meginstefnumiðunum um að viðhalda opinberu þjónustustigi, atvinnuleysiskerfunum okkar, svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum og mótvægisaðgerðunum. Einungis ef dekkri mynd raungerist þá er hægt að nýta óvissusvigrúmið og reka ríkissjóð með meiri halla. Það er algjör lykilforsenda á fyrirkomulaginu sem heitir óvissusvigrúm og er í raun og veru bara viðbrögð við því sem fjármálaráð hefur sífellt bent á, að við séum ekki að setja okkur sjálf í spennitreyju þess að geta ekki uppfyllt þau markmið sem við setjum í stefnu. Við verðum síðan að útfæra það í fjármálaáætlun og fjárlögum þegar þar að kemur. Gagnsæið verður algjört lykilatriði í þeim efnum, ég tek undir með hv. þingmanni með það. Ég held að við eigum svolitla vinnu eftir í þeim efnum og framkvæmdarvaldið verður að taka það til sín. Við komum inn á það á bls. 8 í nefndaráliti okkar að búið er að skipa starfshóp sem á að greina efnahagsleg áhrif sóttvarna. En við þurfum að fá samtímagreiningar á því í hvað aðgerðirnar fara og hverju þær skila.