150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[20:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af umræðu hér virðist mega ráða að verið sé að ræða um nýja fimm ára stefnu. Við erum áfram að tala um sömu stefnuna. Við erum að uppfæra stefnu sem nær til ársins 2022 og leggja línurnar um hallann, um það hvernig skuldirnar þróist, skapa ramma fyrir fjármálaáætlun þessara ára og leggja grunn að fjárlögum næsta árs. Við erum ekki að tæma umræðu um fjárlög næsta árs eða fjármálaáætlun eins og má ætla af umræðunni vegna þess að í henni eru nefnd dæmi um atriði sem alls ekki er að finna í þessu þingskjali, til rökstuðnings fyrir því að það megi ekki styðja þingsályktunartillöguna. Það er eitt að menn séu ósáttir við uppleggið í þessari þingsályktunartillögu en ég heyri engar tillögur til að stefna eitthvert annað. Hér er lagt til að ríkisfjármálunum verði beitt til að taka myndarlega á málum, alvarlegri (Forseti hringir.) stöðu sem er komin upp. Það er rétta leiðin. Hver er valkosturinn?