150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

staða sveitarfélaga.

[10:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur talað um að beita ríkissjóði af alefli í viðbrögðum við þeim efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir en minna hefur verið rætt um stöðu sveitarfélaganna. Kreppuástand bitnar því miður mest á þeim sem minna mega sín og hættan á að ójöfnuður í samfélaginu aukist er mikil. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í að tryggja að sá ójöfnuður verði sem minnstur en munu þau hafa fjárhagslega burði til þess?

Hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur talað um að sveitarfélögin þurfi að ganga á eigið fé en restina muni þau þurfa að fjármagna með lántöku. Staða þeirra er þó misjöfn og geta mörg þeirra litlu við sig bætt. Höggið hefur komið misilla niður á sveitarfélögum og er staðan sérstaklega slæm á Suðurnesjum og í sveitarfélögum sem hafa byggt á ferðaþjónustu. Í skýrslu starfshóps um stöðu sveitarfélaganna kemur fram að neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu þeirra nemi um 8,5% af heildarútgjöldum sveitarfélaga í fyrra og að útsvarstekjur þeirra verði 10 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir. Í skýrslu Byggðastofnunar um stöðu sveitarfélaganna er bent á að þar sem tekjufall, tregari innheimta gjalda, aukinn rekstrarkostnaður og auknar framkvæmdir fara saman muni það leiða til aukinnar skuldsetningar sveitarfélaga sem leiðir svo af sér í náinni framtíð hækkaðar afborganir lána, hækkaðan vaxtakostnað og niðurskurð í rekstri.

Ég spyr því hæstv. sveitarstjórnarráðherra: Hvar eiga sveitarfélögin að skera niður? Ekki má skera niður lögbundna þjónustu en sú ólögbundna er ekki síður samfélagslega mikilvæg og má þar nefna m.a. tónlistarskóla, íþrótta- og menningarmál og ýmsa mikilvæga félagsþjónustu. Með hvaða hætti ætlar ríkið að koma til móts við sveitarfélögin til að þau geti tryggt áframhaldandi þjónustu, t.d. við börn og ungmenni, hælisleitendur, heimilislausa og aðra jaðarhópa? Mun ríkisstjórnin til að mynda tryggja að ekki verði skerðing á framlögum úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna með því að veita viðbótarfjármagn til sjóðsins?