150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þau mistök áttu sér stað í gær að þingið samþykkti sem hluta af hlutdeildarlánapakka ákvæði sem heimilar umsækjanda að sækja um ótilgreint lán í ótilgreinda íbúð fyrir ótilgreinda fjárhæð með ótilgreindu veði. Þetta gerðist vegna þess að hér var laumað inn við atkvæðagreiðslu breytingartillögu framsögumanns, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, um að umsækjendur með samþykkt kauptilboð njóti forgangs í hlutdeildarlánum. Þetta þýðir að þeir sem ekki eru með kauptilboð í íbúð og ekki með samþykkt kauptilboð geta sótt um hlutdeildarlán. Þetta þýðir að maður getur sótt um ótilgreint lán fyrir ótilgreindri fjárhæð í ótilgreinda íbúð.

Ég held að það hafi enginn ætlað sér að samþykkja þetta enda er það ekki í atkvæðagreiðsluskjali sem dreift er frá þingfundaskrifstofu. Þetta eru vinnubrögð sem eru fullkomlega óásættanleg. Þessi breytingartillaga var hvergi nefnd við hv. velferðarnefnd, var aldrei boðuð í tölvupósti, samtölum eða nokkurn tíma. Það var ekki mælt fyrir (Forseti hringir.) þessari breytingartillögu við 3. umr. málsins. Þetta eru vinnubrögðin sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar bjóða upp á hér á Alþingi. Verði ykkur að góðu.