150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ef við leyfum öllum að njóta vafans og beygjum okkur aftur á bak, eins og er sagt á hörmulegri ensku, til að reyna að trúa því að þetta sé allt gert með hinum besta vilja þá stendur eftir það sem hefur verið kvartað undan árum ef ekki áratugum saman, þ.e. hvað gerist þegar þingið gefur sér ekki tíma til faglegra vinnubragða. Það er það allra skásta sem við getum sagt. Það er búið að vara við því í nefnd, búið að vara við því í pontu, búið að vara við því í nefndarálitum, aftur og aftur. En það er alltaf gert ráð fyrir því að ef fólk vill svo mikið sem skoða málin aðeins betur þá sé það einhver tafaleikur. Margur heldur mig sig, virðulegur forseti. Þetta þing þarf að taka sig saman í andlitinu þegar kemur að faglegum vinnubrögðum. Það er það allra skásta sem er hægt að segja.