150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í gær þótti forseta og reyndar ýmsum öðrum þingmönnum meiri hlutans það ægilegt hneykslismál að ég hefði ekki upplýst þingflokk minn um eitthvað sem ég upplýsti hann reyndar alveg fyllilega um. Í dag stöndum við frammi fyrir því að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir virðist ekki hafa upplýst þingið um það hvað tiltekin breytingartillaga snerist um. Hún virðist hafa farið í gegn sem lög án þess að í rauninni nokkur í þessu húsi virðist átta sig á því til hvers breytingartillagan var. Það er ljóst af ummælum hv. þingmanns að greinilega er verið að rugla saman umsókn um lán og greiðslumati eða alla vega er einhver þannig misskilningur á ferð. Ég er ekki viss um að neinn í þessu húsi átti sig á því nákvæmlega út á hvað tillagan gekk.

Við stöndum frammi fyrir því að lög voru sett á Alþingi í gær sem enginn skilur. Það þarf að laga. Það þarf að leysa þetta vandamál. Og almennt þurfum við að gefa okkur nægan tíma til að ræða málin vegna þess að svona vinnubrögð eru ólíðandi.