150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég fagna orðum hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar og viðleitni hans til að bera klæði á vopnin, þó að hann beri vissulega ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Ég ætla hins vegar að mótmæla því að um einhvern misskilning sé að ræða hjá okkur. Þetta er enginn misskilningur, þetta eru bara óboðleg vinnubrögð. Ég velti því fyrir mér, nú þegar við stöndum frammi fyrir umræðu um risamál sem þarf að vinna hratt og örugglega, og hefur líklega sjaldan verið meiri þörf á trúverðugleika af hálfu löggjafarvaldsins: Hvernig á traust að vera til staðar í umfjöllun risamála sem eru til meðferðar í þinginu þegar svona amatör vinnubrögð eru viðhöfð? Þetta er amatörismi, ekkert annað, vonandi ekki eitthvað verra.

Ég ætla líka aðeins að fá að leiðrétta hæstv. félagsmálaráðherra. Það er ekki framsögumaður þessa máls sem boðar til fundar í velferðarnefnd og boðar dagskrá þar. Það er formaður nefndarinnar, hvort sem meiri hlutanum líkar betur eða verr. Það getur vel verið að hv. formaður muni gera það. Ég óska eftir því að það verði ekki á meðan umfjöllun um risamál er á dagskrá í dag. Ég held að full þörf sé á vakandi augum þingmanna í þingsal í því máli í ljósi þessa klúðurs. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)