150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ýtti á græna takkann í gær og sagði já við orðalagsbreytingu. Ef ég hefði vitað við hverju ég var að segja já þá hefði ég sagt nei. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki kynnt mér það betur, en hvernig átti ég að kynna mér það betur? Það er það sem ég er að reyna að átta mig á. Þetta þýðir að í hvert skipti sem inn kemur orðalagsbreyting hringja allar viðvörunarbjöllur. Hingað til hefur maður getað treyst því að orðalagsbreyting sé bara lítlis háttar orðalagsbreyting en nú er það farið. Það traust er farið og nú verður maður tortrygginn út í allt sem kemur inn í þingið. Það er annað í þessu sem við verðum líka að átta okkur á: Þetta er orðið að lögum, það er ekki hægt að breyta þessu fyrr en á næsta þingi, þannig að við verðum bara að sætta okkur við þetta. Nú verðum við bara að sjá hvað ráðherra og ríkisstjórnin ætlar að gera við þessa svokölluðu orðalagsbreytingu í lögunum.