150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:40]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur ekki fleiri á mælendaskrá enda er mestallur viðstaddur þingheimur búinn að tala tvisvar um fundarstjórn forseta. [Hlátur í þingsal.] Forseti vill segja af þessu tilefni að það vill svo til að forseti var sjálfur á stól þegar lesin var útbýting á þessari breytingartillögu. Það var um miðjan dag í gær, þannig að í sjálfu sér lá hún frammi sem þingskjal í fimm, sex klukkutíma áður en hún kom til atkvæða. Að því leyti til var tími til að kynna sér efni málsins. Forseti verður að minna á það að hv. þingmönnum ber ákveðin skylda í þeim efnum, jafnvel þótt þeir séu ekki í viðkomandi þingnefnd, til að kynna sér það sem til stendur að greiða atkvæði um.

Að því sögðu — ef forseti fær gott hljóð — dregur forseti þá niðurstöðu af þessari umræðu að hér hafi orðið mistök. Hér hafi orðið misbrestur á því að tillagan væri kynnt nefndarmönnum í velferðarnefnd með eðlilegum hætti. Þau mistök hafa verið viðurkennd, að mér heyrist, af þeim sem í hlut eiga og boðið upp á að nefndin komi saman til að fara yfir málið og ræða það. Því fagnar forseti. (Gripið fram í: Hvað á að koma út úr því?) Væntanlega skoðar nefndin hvort þarna hafi verið gerð efnisleg mistök, hvort frumvarpið hafi breyst til hins verra eða hvort niðurstaðan sé hugsanlega sú að breytingin hafi verið til bóta eða sé hlutlaus. Það verður viðfangsefni þeirra sem fara yfir það. Í nefndunum er að sjálfsögðu hinn rétti vettvangur til að vinna með slík mál og bæta úr þeim. Því er oft beint til forseta eða forsætisnefndar að það sé á þeirra ábyrgð ef hlutir af þessu tagi gerast. En vandasamt er að sjá hvernig það getur leyst af hólmi þá skyldu nefndanna sjálfra að bera ábyrgð á störfum sínum enda eru þær sjálfstæðar í þeim. Við erum væntanlega öll sammála um að við viljum hjálpast að við að fyrirbyggja að mistök af þessu tagi eigi sér stað. Þá er líka gott og mikilvægt að þau séu einfaldlega viðurkennd af auðmýkt og menn vinni í samræmi við það.

Forseti vill engu að síður segja í lokin eftir þessa miklu umræðu að það er hans skoðun — hér var nefnd einhver 37 ára reynsla — að almennt séu hér á Alþingi stunduð vönduð vinnubrögð. Almennt geri menn sitt besta til að mál séu eins vel búin og rannsökuð og hægt er. Og mikið yrði forseti glaður ef einhvern daginn eyddu menn nú sambærilegri tímalengd og þremur korterum í að gleðjast og hrósa hvert öðru fyrir það sem vel er gert á Alþingi. Það vill því miður sjaldan bera á góma en mikil orka fer í að tala um það sem mistekst, þar sem mistök verða, þar sem misbrestur er á. Það gefur að sjálfsögðu, og eðlilega, þá mynd af Alþingi að hér sé allt í handaskolum en svo er ekki, sem betur fer. Almennt er unnin hér vönduð vinna, vönduð lagasetning og allir gera sitt besta. Það er mikilvægt að það gleymist ekki í önn dagsins, jafnvel þótt við þurfum stundum að ræða hér eitthvað sem út af ber. Forseti gerir engar athugasemdir við það í sjálfu sér en myndi hins vegar fagna því ef meira jafnvægi væri í slíkri umræðu og einstöku sinnum létu menn það eftir sér að hrósa því sem vel er gert.