150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Já, ég skal útskýra þetta vel. Það er hægt að veðsetja hlutabréf til að auka tryggingar fyrir láni. Það er hægt. Breytiréttur getur verið valkvæður af hálfu ríkisins. Það er númer tvö. Ég tala fyrir því að ríkið hafi þann rétt að breyta kröfu sinni í hlutabréf ef það þjónar hagsmunum ríkisins. Breytirétturinn er varúðarréttur sem ríkið ætti að hafa rétt á að nýta, en það hefur það ekki dag. Í þriðja lagi: Ef fyrirtækið er í slæmri stöðu þá getur hugsanlega verið betra að fá hlutabréf í staðinn fyrir að fá ekki neitt. Ef þeir lenda í vanskilum með 15 milljarðana, sem ég vona að þeir geri ekki, það segir sig sjálft, getur hugsanlega verið skárra að fá hlutabréf í félagi sem þarf hugsanlega að endurreisa í stað þess að fá ekki neitt. Því að þá fáum við hlutabréf í félaginu og ef það verður gjaldþrota þá tapast það, en það var þá tapað hvort sem er. (Forseti hringir.) Ég ítreka að Icelandair er hlutafélag og samkvæmt hlutafélagalögum er takmörkuð ábyrgð. Ríkissjóður er ekki að ábyrgjast (Forseti hringir.) skuldir Icelandair. Ég veit að þingmaðurinn var ekki að spyrja um það,(Forseti hringir.) en það skiptir máli að því sé haldið til haga. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil auka tryggingavernd ríkisins.