150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held að hv. þingmaður sé að misskilja eitthvað afstöðu Samfylkingarinnar. Við höfum einmitt talað fyrir því að hér þurfi ríkið að koma með miklu myndarlegri hætti að því að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki. Við höfum talað fyrir því að milda þurfi höggið gagnvart atvinnulífinu. Við erum ekkert feimin við það. Við viljum að Icelandair spjari sig og taki flugið á nýjan leik. Það er ekki hægt að mála okkur sem einhvern andstæðing þessa máls þó að við spyrjum spurninga. Það er bara eðlilegt.

Varðandi Ríkisábyrgðarsjóðinn er sú greiningarvinna sem okkur var boðið upp á í fjárlaganefndinni ekki upp á marga fiska. Ég held að hún hefði verið meiri ef við hefðum farið eftir laganna bókstaf um ríkisábyrgð. Það hefði ekki skemmt fyrir. Eins og kom fram sjáum við t.d. að í frumvarpinu var ekki búið að einskorða þetta við flugreksturinn. Við þurftum að breyta því í nefndinni. Það var ekki búið að leggja mat á samkeppnina. Play benti okkur á það. Samkeppniseftirlitið gerði það sömuleiðis. Þetta eru atriði sem Ríkisábyrgðasjóður (Forseti hringir.) hefði gert samkvæmt þeim lögum. Það kemur fram (Forseti hringir.) að þeir hefðu átt að meta samkeppnisstöðuna. Það var ekki gert nægilega vel, segi ég, alla vega ekki af hálfu þeirra sem starfa á þessum markaði.