150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Ég vildi í seinna andsvari ræða um annan þátt við hv. þingmann. Mér finnst umræðan hér öðrum þræði litast svolítið af því að við séum alveg til í að taka áhættu með opinbera fjármuni þegar við erum farin að fjalla um aðrar leiðir en þessa, því að við lögðum mikla vinnu í það í fjárlaganefnd að skoða þær leiðir sem hefðu verið metnar sem leiddu af þessari ákvörðun.

Ég ætla að gera að umfjöllunarefni þá áhættu sem við erum að taka með almannafé og þær ábyrgðir sem við erum að gangast undir sem við afgreiðum ekki hér af neinni léttúð. Ég er ekki að halda því fram að nokkur sé að gera það heldur. Við þurfum að taka það af mikilli alvöru. Hv. þingmaður vék að ríkisábyrgð sem færi út í gegnum ríkisbankana. Mér fannst hann færa í þeirri umræðu, sem er alveg ástæða til að taka, mjög góð rök fyrir því að ríkið ætti ekki að vera að halda á þessum bönkum. Í umræðum um þá áhættu sem við tökum með almannafé í þessu stóra máli, með eignarhaldi á þessum stóru bönkum, kristallast einmitt að það sé áhætta sem við ættum ekki að taka. Er hv. þingmaður sammála því?