150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en komið hingað upp til að svara hreinum rangfærslum sem komu fram í máli hv. þingmanns. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður setur þetta svona fram til að reyna að slá ryki í augu almennings því að það er ekki svo að verið sé að víkja frá lögum um ríkisábyrgðir vegna þess að það henti ekki í þessu tilviki, eins og stendur í nefndaráliti hv. þingmanns, heldur er það þannig, eins og gaumgæfilega hefur verið farið yfir í fjárlaganefnd, að ef lögum um ríkisábyrgðir væri beitt gagnvart Icelandair, og vegna ábyrgða sem Alþingi hefur samþykkt í tengslum við faraldurinn, þá myndu þau úrræði ekki ná markmiðum sínum. Það er ekki vegna þess að það henti ekki. Þessi lög eiga bara ekki við og ef við viljum ná markmiðinu, og hv. þingmaður talaði um að fyrirtækið væri kerfislega mikilvægt, þarf að fara aðra leið. Sú leið sem hér er farin er að sérsníða skilyrðin sem eru fyrir ríkisábyrgðinni og sérskrifa inn hvernig greiða eigi til baka ef gengið verður á ríkisábyrgðina. Því meira sem nýtt er af henni, því dýrara verður að greiða það. Ég vildi bara segja það skýrt hér. (Gripið fram í.) Ég er að leiðrétta rangfærslur sem ég tel að hafi komið fram í máli hv. þingmanns og hún verður þá bara að útskýra þetta betur. Það er verið að tryggja að hægt sé að standa vörð um hag ríkissjóðs en á sama tíma að koma til móts við þetta kerfislega mikilvæg fyrirtæki.