150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Í kvöld tökum við stóra ákvörðun. Það er ekki á hverjum degi sem þingheimur ákveður hvort styðja skuli einstaka einkafyrirtæki, hvað þá fyrir 15 milljarða kr. Þetta er há fjárhæð. Ef við setjum hana í samhengi er þetta álíka mikill peningur og ríkið setur árlega í menningar- og æskulýðsmál eða því sem samsvarar ársframlögum ríkisins til nýsköpunar sem ríkisstjórnin hefur hælt sér mjög af að leggja ríka áherslu á. Þetta er þó ekki hvaða fyrirtæki sem er sem um ræðir. Icelandair er félag með langa sögu, hefur verið stór vinnuveitandi og mikilvægur hlekkur í samgöngum þjóðarinnar. Líklega eru fáir Íslendingar sem ekki hafa skoðun á Icelandair og hafa ekki margoft flogið með félaginu til útlanda. Það er því ekki af léttúð sem við í Pírötum ákváðum að greiða atkvæði gegn því að veita Icelandair þessa 15 milljarða kr. ríkisábyrgð. Það er gert að vel ígrunduðu máli enda mæla of mörg og veigamikil rök gegn því að þetta sé farsælasta lausnin í stöðunni. Við teljum að til séu betri leiðir til að standa vörð um það sem skiptir mestu máli; að tryggja flugsamgöngur, fara vel með almannafé, draga úr tapi lífeyrissjóðanna og vernda starfsfólk Icelandair.

Ekki þarf að líta lengra en til áætlana sem ríkisstjórnarleiðin byggir á. Óvissan sem umlykur flug á tímum kórónuveirunnar og eftirkasta hennar gerir þær einfaldlega ótrúverðugar. Ekki aðeins eru horfur í flugrekstrinum mjög ótryggar heldur eru skoðanir greinenda mjög skiptar. Engin vissa er fyrir því að allt verði fallið í fyrra horf árið 2024, eins og Icelandair gerir sér vonir um, þvert á móti bendir McKinsey á að svo geti hæglega farið að það verði ekki fyrr en 2027. Meira að segja Alþjóðaflugumferðarstofnunin, IATA, sem Icelandair byggir spár sínar á, er orðin svartsýnni á horfur í fluginu. Þessi óvissa ein og sér gefur tilefni til að fara varlega við úthlutun á 15 milljörðum af almannafé. Þar að auki er óhætt að fullyrða að ef horfur Icelandair væri raunverulega jafn góðar og þarna er gengið út frá þyrfti Icelandair ekki ríkisábyrgð til að sannfæra fjárfesta. Forsendur þess útboðs eru að fyrir liggi ríkisábyrgð á lánalínu sem félagið hefur til ríkisbankanna og í ofanálag, forseti, hafa ríkisbankarnir sölutryggt útboðið fyrir allt að 6 milljarða kr. Allt þetta er gert til að selja enn meira af hlutafé í félaginu og þeir kaupendur sem stjórnendur Icelandair horfa helst til eru lífeyrissjóðirnir. Þannig snýst allt planið um að reyna að fá meira almannafé inn, hvort sem það er frá ríkissjóði í gegnum ríkisbankana eða frá lífeyrissjóðunum og miðla því svo til kröfuhafanna til að halda félaginu á floti.

Þetta þykir mér ekki góð nýting á almannafé og þetta þykir mér of áhættusamt fyrir almenning. Það væri að sjálfsögðu farsælast og óskandi að hlutafjárútboðið gengi án aðkomu ríkisins og félaginu tækist að halda sjálfu sér á floti. Það væri besta mögulega niðurstaðan. En jafnvel ef svo færi ekki þá gæti ríkið verið tilbúið að grípa inn. Ef það liti þannig út að félagið væri á leið í gjaldþrot gæti ríkið gripið inn í og eignast ráðandi hlut í félaginu, t.d. með því að kaupa út lífeyrissjóðina. Þannig væri hægt að takmarka tap almennings af töpuðum fjárfestingum sjóðanna og veita svo nauðsynlega fjármuni til að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu. Hversu lengi þessi ráðstöfun yrði í gildi er óráðið. Það gæti varað í stuttan tíma ef fjárhagsstaða félagsins væri mjög slæm og á meðan annað flugfélag væri að hefja rekstur. En það gæti líka alveg eins varað í lengri tíma og félagið jafnvel orðið rekstrarhæft að því loknu. Ákvörðun um framtíðina væri þá í höndum stjórnvalda að höfðu samráði við almenning.

Þá verður ekki litið fram hjá framgöngu stjórnenda Icelandair á síðustu mánuðum. Ef ríkisstjórnin vill taka afstöðu með launafólki eða bera almennt virðingu fyrir viðsemjendum sínum þá hlýtur hún að veita þessa 15 milljarða ábyrgð með visst óbragð í munni. Það var stjórnendum Icelandair beinlínis kappsmál að lækka laun og skerða réttindi starfsmanna sinna sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Og þegar kvennastétt neitaði að láta undan ógnarstjórnun yfirboðara sinna brugðu þeir á það einfalda og í raun og veru óforskammaða ráð að segja öllum flugfreyjum upp og hótuðu að semja við annað stéttarfélag á meðan kjaradeilan var enn á borði ríkissáttasemjara.

Forseti. Hvað gerist ef Félagsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að félagið hafi gerst brotlegt við flugfreyjufélagið? Ætlar ríkisstjórnin að styðja við félagið eftir slíkan áfellisdóm? Það skiptir líka máli hvaða skilaboð það sendir út í samfélagið ef ríkið samþykkir ríkisábyrgð til Icelandair á þessum tímapunkti. Innspýting á almannafé til Icelandair hefur verið viðvarandi undanfarna áratugi og hafa gríðarlegir fjármunir farið til félagsins síðan Covid-faraldurinn braust út hér á landi með tilheyrandi áhrifum á efnahaginn. Nú þegar almennar aðgerðir hafa ekki dugað á að ráðast í sértækar aðgerðir með beinni aðkomu ríkissjóðs.

Forseti. Í hruninu var mörkuð sú stefna að nota ekki almannafé til að bjarga fallandi stórfyrirtækjum. Bankarnir voru látnir falla en ríkið tryggði grunnrekstur þeirra. Hvað hefur breyst? Hvað er öðruvísi núna? Af hverju förum við ekki þá leið aftur?

Forseti. Almannafé er ekki varasjóður fyrir fyrirtæki sem fer illa með eigin mannauð. Það er ekki varasjóður fyrir fyrirtæki sem ætlar að treysta á einokunarstöðu og gefa hinu opinbera ástæðu til að leggja stein í götu keppinauta. Almannafé á ekki að stuðla að sveltistefnu fyrir starfsfólk og okurstefnu fyrir neytendur. Ríkisstjórnin hefur stært sig af því að spanna hið pólitíska litróf, bjóða upp á það besta frá vinstri og hægri væng stjórnmálanna, en ríkisábyrgðarleið ríkisstjórnarinnar sameinar hins vegar það versta á báðum vængjum stjórnmálanna, einkavæðingu gróðans og ríkisvæðingu tapsins.

Við í þingflokki Pírata greiðum að sjálfsögðu atkvæði gegn þessari ríkisábyrgð en á sama tíma vonum við það allra besta fyrir félagið og leitumst eftir allra bestu niðurstöðu fyrir almenning í landinu.