150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætlaði bara að taka undir með kollegum mínum sem talað hafa á undan mér og leggja áherslu á að það er mikilvægt að tryggja flugsamgöngur og það er mikilvægt að fara vel með almannafé, draga úr tapi lífeyrissjóðanna. Það voru helstu markmiðin sem við Píratar höfðum að leiðarljósi þegar við vorum að hugsa þetta og ákveða hvort við myndum styðja þessa leið eða ekki. Auðvitað er óskandi að hlutafjárútboðið gangi vel hjá Icelandair án aðkomu ríkisins. Það væri besta mögulega niðurstaðan. Við óskum þessu félagi velgengni í því, en ríkið gæti alveg verið tilbúið til þess að grípa inn í ef það gengur ekki upp, sem varaplan, t.d. með því að kaupa hlut lífeyrissjóðanna. Við erum bara að opna á það að ríkið eignist hlut ef illa gengur, að taka ekki þessa áhættu með almannafé sem verið er að gera núna í gegnum lífeyrissjóðina, ríkisbankana og ríkissjóð. Það er of mikil áhætta (Forseti hringir.) og við fáum allt of lítið fyrir það. Við vitum ekki einu sinni hvort við fáum neitt fyrir það.