150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Bara svo það sé sagt varðandi það hvað Píratar vilja: Við viljum tryggja flugsamgöngur, við viljum vernda starfsfólkið, við viljum lágmarka og minnka skaða lífeyrissjóðanna. Við teljum að með þessum gjörningi sé verið að fá þá í það að henda góðum peningum á eftir slæmum. Við viljum fara vel með almannafé. Það sem þessi tillaga ríkisstjórnarinnar gerir er að fá aðila til að henda góðu fé áfram á eftir slæmu. Við teljum það eftir sviðsmyndagreiningar okkar, eftir greiningar frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum, eftir greiningu McKinsey sem segir að sviðsmyndirnar sem tillaga ríkisstjórnarinnar byggir á standist ekki. Það lítur allt út fyrir að það verði niðurstaðan. Ríkið ætlar samt að setja 15 milljarða kr. lánalínu þegar félagið í dag er 5 milljarða kr. virði. Það sem við vildum gera er að ef markaðnum tekst ekki að sinna þessu — sem markaðurinn á að gera, markaðurinn á að fá að virka, samkeppni á að fá að virka — þá stígi ríkið inn og aðeins þá. Þá og ekki fyrr stígur ríkið inn. (Forseti hringir.) Þá eru þessi hlutabréf orðin einskis virði og ríkið getur boðið að kaupa þau á mjög lágu verði til að halda (Forseti hringir.) flugrekstri áfram, halda flugvélunum gangandi, þar til hægt er að leysa úr stöðunni. Það er raunveruleg lausn sem fer vel með almannafé, (Forseti hringir.) vel með starfsfólk, vel með lífeyrissjóðina, vel með almannafé.