151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fór svo sem eins og mig grunaði að þegar hv. þingmaður nefndi sérstaklega útgjaldavöxt til utanríkisþjónustu þá hafði hann ekki áttað sig á sögu málsins, en ég ætla ekkert að erfa það við hann, ég held að nauðsynlegt sé að við förum yfir þetta eins og hvað annað. Sú útgjaldaaukning sem hann gerir þar að umtalsefni tengist miklu frekar gengisþróun útgjalda, af því að útgjöld vegna ríkisþjónustu eru eðlilega talsvert háð gengisþróun.

En annað atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég get ekki stillt mig um að ræða, þó svo það sé kannski umræða fyrir utan fjárlagafrumvarp, voru orð hv. þingmanns um tollasamning og afkomu bænda. Ég tek að mörgu leyti undir það sem hv. þingmaður nefnir. En ég vil, virðulegur forseti, að við höfum umræðuna kannski aðeins innihaldsmeiri vegna þess að ég er einn af þeim sem stóðu að samþykkt þess þingmáls þar sem við fastsettum þann tollasamning. Þá vil ég líka að hv. þingmaður kannist við hverjir gerðu þann samning. Ef hann vill það ekki legg ég til að fram fari opinber rannsókn á því hver gerði tollasamninginn. En það er að sjálfsögðu alvarlegt mál hvernig málefni eru að þróast þar. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra vinnur að endurmati á þeim samningi en sá samningur var tengdur miklu stærra máli sem var staðfesting búvörusamninga. Ég vil ekki að við förum í þann pólitíska leik að kannast ekki við ábyrgð á því máli og hv. þingmaður skilur hvað ég á við þegar ég segi þetta.