151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hallinn á ríkissjóði sem átti að vera 10 milljarðar á þessu ári verður rúmir 269 milljarðar. Á tveimur árum verður hallinn rúmir 533 milljarðar. Eftir bankahrunið var hallinn 194 milljarðar þannig að sú staða sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum er erfið. Við ættum að gera allt til þess að geta staðið undir velferðarkerfinu og þar á meðal að leita hagræðis í ríkisfjármálunum. Samtök atvinnurekenda spá því að allt að 30.000 manns geti verið atvinnulausir um áramótin og þetta er mjög alvarleg staða.

Herra forseti. Það vantar í fjárlagafrumvarpið skýr markmið um fjölgun starfa. Arðbærar fjárfestingar ríkissjóðs í þessu árferði eru mjög mikilvægar og þær þurfa að vera meiri. Við í Miðflokknum leggjum áherslu á að lækka enn frekar tryggingagjaldið. Það vinnur gegn atvinnuleysi. Lækkun þess er ekki glatað skattfé eins og margir vilja telja vegna þess að það ýtir undir að fjölga störfum og það er ákaflega mikilvægt í þessu árferði þegar greiðslur atvinnuleysistryggingabóta slaga hátt í 100 milljarða á tveimur árum.

Þessi fjárlög eru sérstök að því leytinu til að þau eru kosningafjárlög þegar kemur að því að ná niður halla ríkissjóðs. Ríkisstjórnin þorir ekki að mæta miklum halla með því að draga úr umsvifum. Til þess er of stutt til kosninga. En það er hægt að ráðast í niðurskurð án þess að draga úr aðstoð til almennings. Þar á ríkisstjórnin að sjálfsögðu að sýna gott fordæmi en það gerir hún ekki einu sinni hjá sjálfri sér. Hún sparar ekki í sínum fjárheimildum. Hún fær 680 milljónir á fjárlögum sem hækka um 20 milljónir milli ára þegar við erum stödd í mesta fjárhagshalla ríkissjóðs í 100 ár. Þannig að þið sjáið að það er hægt að hagræða á mörgum sviðum. Ég get nefnt marga málaflokka. Fjármálaráðherra sagði að það væri blóðug sóun úti um allt í opinbera kerfinu en hann gerir ekkert í málinu.