151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, mér finnst rétt að hæstv. forsætisráðherra svari einmitt þeirri spurningu hvaða rök eru gegn því að hækka atvinnuleysisbætur a.m.k. tímabundið við þessar aðstæður. Það er alveg rétt að öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir þessu vandamáli en það er hluti af heimsbyggðinni sem stendur frammi fyrir meiri erfiðleikum og það gildir líka um Ísland. Það er bara þannig að efnaminna fólk og fólk sem er að detta inn á atvinnuleysisbætur þarf að bera uppi þessu kreppu að miklu leyti á meðan hún lenti illa á öllum 2008. Mér finnst sérkennilegt að ríkisstjórn með forsætisráðherra sósíalista í forsæti ljái ekki máls á því að hækka atvinnuleysisbætur eða tryggja lífeyrisþegum sambærilegar hækkanir og í lífskjarasamningunum en geti á sama tíma boðað lækkun fjármagnstekjuskatts á efnamesta fólkið, veitt útgerðarfyrirtækjum afslátt vegna skipakaupa og lækkað veiðigjöldin.

Bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa tekið undir að það voru mistök í lagasetningunni í byrjun september þar sem fólk lenti milli skips og bryggju sem datt út af tekjutengdum atvinnuleysisbótum 31. ágúst. Hvernig hyggst hæstv. forsætisráðherra bregðast við þessum mistökum? Mun því fólki verða bættur sá missir eða hugsar hún sér að það nái jafnvel til stærri hópa lengra aftur? Það verði þá bætt kjörin hjá öllum þeim 12.000 sem nú eru á grunnatvinnuleysisbótum.