151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Stefnumótun í opinberum fjármálum er aðeins gagnsærri núna en undanfarin ár með innleiðingu velsældarviðmiða í fjármálaáætlun. Fyrstu skrefin eru ágæt en nokkur atriði mætti bæta. Það mætti t.d. hafa samantekt sem nær yfir öll málefnasviðin fyrir hvern velsældarmælikvarða þannig að hægt sé að sjá ætluð heildaráhrif og kostnað til að fá eitthvert samhengi.

Í fjármálaáætluninni er fjallað um velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar en þær eru sérstaklega andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnislaus framtíð, gróska í nýsköpun og betri samskipti við almenning. Ágætisáherslur.

En mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um síðustu áhersluna, betri samskipti við almenning. Ég gríp þá til umsagnar Jóns Ólafssonar um stjórnarskrárfrumvarp hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ekki er reynt með neinum kerfisbundnum hætti að byggja á samráðinu þegar svo vill til að niðurstöður þess eru í samræmi við frumvarpsdrögin og engin tilraun er gerð til að skýra frávik þegar í drögunum eru farnar aðrar leiðir en samráðið gefur til kynna að almenningur styðji.“ — Jón segir einnig: „Höfuðtilgangurinn virðist sá að réttlæta og fá fólk til að sætta sig við hreina og klára valdníðslu; að stjórnmálaflokkar á Alþingi geti gert breytingar á stjórnarskrá eins og þeim sýnist þrátt fyrir að yfir tveir þriðju hlutar kjósenda hafi þegar samþykkt efnislegan grundvöll nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til í nafni þingsins.“

Þetta kemur frá formanni starfshóps forsætisráðherra um traust á stjórnmálum. Ég spyr því: Er nóg að segjast vilja betri samskipti við almenning en gera ekkert við þau samskipti ef niðurstöðurnar eru ekki þóknanlegar stjórnvöldum?